Une Misére, Vintage Caravan og Vicky stóðu upp úr á Eistnaflugi

Hljómsveitirnar Une Misére, Vintage Caravan og Vicky áttu bestu tónleikana á nýafstöðnu Eistnaflugi að mati dómnefndar Austurgluggans. Margir fögnuðu áherslu á íslenskar hljómsveitir en settu um leið spurningamerki við hversu vel Egilsbúð væri í stakk búin fyrir hátíðina.

Hljómsveitirnar koma nokkuð hver úr sinni áttinni innan þokkarokksgeirans. Vintage Caravan var stofnuð árið 2006 og hefur lengi verið í fararbroddi íslenskra þungarokkssveita. Une Misére var stofnuð tíu árum síðar en leið hennar hefur legið hratt upp á við og hún verið eitt af aðalnúmerum Eistnaflugs síðustu þrjú ár. Sveitirnar léku hver á eftir annarri á fimmtudagskvöldið.

„Vintage Caravan er í fantagóðu formi eftir að hafa túrað heima og erlendis síðustu mánuði. Maður sá hvernig húsið troðfylltist þegar var komið að þeim enda hafa þeir tryggt sér fastan sess á Eistnaflugi og bara almennt í íslensku tónlistarlífi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma og þurfa ekki að hafa mikið fyrir því að halda uppi fjörinu. Orkan frá þeim smitar alla og ég er ennþá gangandi á þeirri orku síðan í gær,“ sagði einn sérfræðinga Austurgluggans í nýjasta hefti blaðsins. Une Misére þóttu einnig kröfugir og líflegir í sviðsframkomu sinni. „Þeir voru svakalegir. Það var ekki vandamál að ná upp stemmingunni, söngvarinn kom af stað pytti sjálfur.“

Vicky er líkt og Vintage Caravan stofnuð árið 2006. Hún hefur þá sérstöðu innan þungarokksins að vera skipuð þremur konum og einum karli. „Þau voru geggjuð. Það er gaman að sjá hvað stelpur geta verið harðir rokkarar.“

Ýmsar aðrar sveitir voru nefndar til sögunnar fyrir frábæra tónleika á aðalsviðinu svo sem Grit Teeth, Golden Core, Graveyard, Dimma, Hate, Morpholith, Devine Defilement og Auðn. Um síðastnefndu sveitina sögðu sérfræðingar blaðsins að hún hefði staðið sig frábærlega á sviðinu en liðið fyrir það að vera snemma í dagskránni. Reynsluboltarnir í Brain Police eignuðu sér salinn, þó ekki eins og Páll Óskar sem var síðastur allra á svið. „Hann átti salinn meira en nokkur annar á hátíðinni og náði hörðustu rokkurum til að dansa eins og engin væri morgundagurinn.“

Blóðmör á stóra sviðið

Sérfræðingarnir voru sammála um að táningarnir í Meisturum dauðans hefðu verið það band sem mest hefði komið á óvart. „Meistarar dauðans voru alveg magnaðir. Ungir og efnilegir strákar með geggjaða tónlist. Klárt ungstirni í metal-heiminum,“ voru umsagnirnar um þá.

Á milli tónleika á aðalsviðinu komu hljómsveitir fram á hliðarsviði í Stúkunni. Hljómsveitin Blóðmör, sem vann Músíktilraunir í vetur, þótti standa sig best þar. Dómnefnd Austurgluggans var einróma um að sú sveit verðskuldi svæði á aðalsviðinu að ári. „Eitt það besta sem gerst hefur fyrir metal-senuna er að þeir hafi unnið músiktilraunir. Ekki efnilegir, heldur bara góðir. Sætir, krúttlegir og fáránlega hæfileikaríkir,“ sögðu dómarar Austurgluggans.

Pönksveitin Tuð fékk einnig lof fyrir frammistöðu sína þar. „Söngvarinn er svo flottur að maður byrjar að syngja með þótt maður þekki ekki lögin.“

Meira líf í bænum

Sú stefna skipuleggjenda hátíðarinnar að leggja aukna áherslu á íslenskar hljómsveitir, samanborið við allra síðustu ár, mæltist vel fyrir hjá dómnefnd Austurgluggans. „Alltaf jafn gaman að hlusta á góða tónlist með böndum sem maður dýrkar eða uppgötva ný bönd og hitta fólk sem maður hittir bara á Eistnaflugi,“ sagði einn. „Ég væri bara til í að sjá áframhald á því að vera með úrval af þekktum og óþekktum íslenskum hljómsveitum. Komið mér á óvart Eistnaflug!“ sagði annar.

Þeir tóku hins vegar misjafnlega vel í að hátíðin væri nú haldin í Egilsbúð í stað íþróttahússins. Margir þeirra kvörtuðu yfir því að hljóðið í Egilsbúð hefði engan veginn verið jafn gott og síðustu ár. Þá hefði stundum verið ljóst að ekki virkaði allt á sviðinu eins og það átti að gera. Einn sérfræðinganna nefndi það sem eftirminnilegasta atvik hátíðarinnar þegar Une Misére hefði orðið rafmagnslaus á sviðinu. Auk þess fengju þeir sem vildu láta aðra áhorfendur bera sig á höndum sér, „crowd-surfa“ betra tækifæri til þess af sviðinu í Egilsbúð en á móti þyrfti alltént ekki að lyfta þeim.

Aðrir nefndu að nándin við hljómsveitirnar í Egilsbúið hefði bætt hátíðina. Staðsetningin hefði einnig fært líf í miðbæ Neskaupstaðar. „Vegna þess að svæðið fyrir utan tónleikasalinn er ekki lokað er hátíðin komin dálítið aftur í hjarta bæjarins. Henni fylgir aftur orðið meira líf í bænum. Gamli sjarminn er kominn aftur,“ sögðu Eistnaflugsfararnir. En því fylgdu líka ókostir. „Ég var búinn að gleyma hversu langt er þangað af tjaldstæðinu,“ sagði einn.

Sérfræðingahópur Austurgluggans samanstóð af vinahópi sem sótt hefur hátíðina reglulega. Sá sem lengst hefur stundað hátíðina hefur sótt hana nær sleitulaust frá því hún var haldin í annað sinn árið 2006. Þau eru: Einar Sveinn Friðriksson, Dagrún Drótt Valgarðsdóttir, Hrólfur Eyjólfsson, Katla Einarsdóttir, Guðrún Sól Jónsdóttir, Bjarki Rafn Ágústsson, Andri Hrafn Karlsson, Sandra Ester Jónsdóttir og Egill Örn Sveinbjörnsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar