![](/images/stories/news/2014/eistnaflug/eistnaflug_2014_0024_web.jpg)
„Ungir sem aldnir eru velkomnir á Eistnaflug“
„Það sem ber hæst í ár er í rauninni það hversu vel tókst til að setja saman fjölbreytta dagskrá,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Eistnaflugs, sem hefst formlega í dag.
Stórar hljómsveitir spila á hátíðinni í ár, svo sem Opeth, Mashuggah, HateSphere og Immolation.
Fjölmargir íslenskir listamenn koma einnig fram, þar á meðal Magni Ásgeirsson, Páll Óskar og sveitirnar Agent Fresco, Mammút, Sólstafir, Dimma, Ham, Ensími, The Vintage Caravan, Fufanu, Abominor, Almyrkvi, Andri Ívars, Angist, Black Desert Sun, Casio Fatso, Great Grief, Hatari, Lucy In Blue, Nykur, Ottoman, Saktmóðigur, Stroff, Dr. Spock, Kolrassa Krókríðandi, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Marduk, Melecesh og Belfegor og Perturbator.
„Það verður fjölbreyttara rokk og ról en áður og svo verður diskópartýið alveg geðveikt, skemmtileg rúsína í restina,“ segir Stefán og vísar til laugardagskvöldsins þegar Retro Stefson og Páll Óskar munu trilla lýðinn.
„Spáin er góð og töluverður munur frá því í fyrra, þegar það var allt að því frost alla helgina, en það brosa allir þegar það er sól og sumar,“ segir Stefán.
Sú skemmtilega nýbreytni verður í ár að börn yngri en átján ára eru velkomin á Eistnaflug í ár í fylgd með fullorðnum. „Við erum svo ofboðslega ánægð með að geta tilkynnt þetta, að börn séu innilega velkomin á flottustu rokkhátíð Íslands í fylgd með forráðamönnum, en ölvun forráðamanns ógildir miðann.
Eftirspurnin eftir þessu hefur verið mikil undanfarin ár og margir yngri rokkunnendur hafa þurft að hverfa frá út af ströngum reglum, en í ár er þetta allt eins og þetta á að vera. Ungir sem aldnir eru velkomnir á Eistnaflug. Þetta verður óendanlega fallegt,“ segir Stefán.
Hér má kynna sér dagskrá helgarinnar.