Uppselt að verða á Bræðsluna sem endranær

Hafa þarf hraðar hendur ef fólk vill tryggja sér miða á Bræðslutónleika þessa árs sem fram fara á sínum hefðbundna stað á Borgarfirði eystri á laugardaginn kemur. Aðeins örfáir miðar eru óseldir en fara þarf aftur til ársins 2006 til að finna Bræðslutónleika sem ekki seldust upp.

Það staðfestir Magni Ásgeirsson, tónlistmaður og forsprakki hátíðarinnar, við Austurfrétt, en gestir eru farnir að mæta í Borgarfjörðinn og lyfta sér upp þó aðalhátíðin sé enn í fjögurra daga fjarlægð. Þeir listamenn sem trylla gesti þetta árið eru Á móti sól, GDRN, Gildran, Aron Can, Kælan mikla og Hildur Kristín.

„Það eru einhverjir örfáir miðar eftir en þeir klárast fljótt eins og alltaf áður enda dagskráin þannig að enginn má missa af. Sem fyrr hefur gengið mætavel að setja allt upp enda vanir menn hér um allt. Við til dæmis búnir að sníða sviðið svo þar er stórt skref komið. En svo eru auðvitað að trufla okkar eins og aðra hér á svæðinu þessir hvalir sem hanga hér í firðinum og hafa gert síðustu daga. Þeir kunna að draga að sér athygli en frábært að fá þessi dýr hér inn og mikið sjónarspil.“

Vínyll fyrir safnara

Að þessu sinni verður einnig hægt að kaupa takmarkaðan fjölda sérframleiddra vínylplatna á Bræðsluvefnum en þar um að ræða tvo af allra bestu tónleikum sem farið hafa fram á Bræðslunni gegnum tíðina að sögn Magna.

„Hér um að ræða annars vegar frábæra tónleika Mugison 2012 og hins vegar KK bands fjórum árum síðar 2016. Sjálfur er ég svona vínylmaður og fór að hugsa það þar sem ég lá í sólbaði á Spáni um jólin hvað væri frábært að fá bestu tónleikana okkar á gamaldags skífur. Svo lét ég bara verða af því og varningurinn dettur í hús á föstudaginn kemur. Allt sérstaklega þrykkt á rautt, aðeins 150 eintök af hvorri skífu  og öll eintökin númeruð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar