Orkumálinn 2024

Úr barsöng á Vopnafirði í Idolið

Símon Grétar Björgvinsson, ríflega þrítugur Vopnafirðingur, tryggði sig síðasta föstudag í sjö manna úrslit Idol stjörnuleitar. Hann segist hafa þjálfast í framkomu og söng við syngja á skemmtunum á Vopnafirði en hafa skráð sig í Idol-ið til að mynda tengsl innan tónlistarbransans í von um að draumurinn um að starfa við tónlist rætist.

„Ég var að spila á sveitaböllum og síðan trúbba á barnum á Vopnafirði. Það var alltaf ein hljómsveit í gangi á Vopnafirði. Við vorum að vinna í fiski hjá HB Granda og tróðum síðan upp á lokahófinu.

Það var oft erfitt að finna söngvara í hljómsveitirnar. Ég var farinn að syngja með þeim 16 ára gamall, hinir í bandinu voru oft tíu árum eldri. Það var góð æfing þótt þeir væru fastir í eldra rokki sem var ekki endilega tónlistin sem ég kveikti við.

Síðan hef ég verið að trúbba á börunum á Vopnafirði og koma fram á Vopnaskaki. Ég man eftir að hafa eitt sinn hitað þar upp fyrir Siggu Beinteins,“ segir Símon Grétar.

Mikill stuðningur úr heimahögunum

Símon Grétar, sem varð 31 árs síðasta laugardag, ólst upp á Seyðisfirði til sjö ára aldurs en flutti þá til Vopnafjarðar. Hann segist finna mikinn stuðning frá báðum stöðum í keppninni.

„Það er ekki nýtt í svona keppnum með símakosningum að fólkinu úr fjörðunum og smábæjunum úti á landi gangi vel. Ég finn vel fyrir þessum stuðningi. Ég hef heyrt í Seyðfirðingum sem ég hafði ekki heyrt í lengi og svo er annað fólk að deila kosninganúmerinu og hvetja annað fólk til að kjósa, sem er æðislegt. Stuðningurinn frá Vopnfirðingum er síðan ótrúlegur.“

Þessi stuðningur skilaði því að Símon Grétar komst örugglega áfram úr átta manna úrslitunum síðasta föstudagskvöld. „Ég fékk að vita fyrstur að ég kæmist áfram. Röðin á okkur er annars ekki gefin upp nema við vitum ef við erum meðal þriggja neðstu,“ segir hann en hann flutti þar lagið Bruises með Lewis Capaldi.

Hann stóð á sviðinu með kassagítarinn fram á sér. „Ég vildi hafa gítarinn með. Ef ég væri að gefa út tónlist þá væri ég að spila sjálfur og ég vildi hafa flutninginn sem raunverulegastan.“

Níu ár eru annars síðan Símon Grétar flutti suður í Hafnarfjörð en hann vinnur sem öryggisvörður á Landsspítalanum. „Ég fór á vakt beint eftir þáttinn á föstudagskvöld. Hjúkrunarfræðingarnir sögðust ánægð með mig og þau hefðu hringt inn til að kjósa mig.“

Draumurinn að starfa við tónlist

Stjörnuleitin fór af stað í haust þar sem áhugasamt fólk sendi inn upptökur af söng sínum. Um sextíu manna hópur var síðan kallaður til að syngja fyrir dómnefnd án undirleiks. Eftir það var fækkað niður í 18 manns og sá hópur söng síðan heilt lag með undirleik fyrir sal með fjölskyldum og dómurum. Eftir það var skorið niður í átta manna úrslit. Þar bætist símakosning áhorfenda þannig að smám saman fækkar keppendum fram að úrslitaþættinum í febrúar.

Næsti þáttur er síðan á föstudag. „Æfingarnar ganga vel. Það er geðveikt að fá að vinna með þessu hæfileikafólki. Ég er núna á leið á mína aðra æfingu í vikunni. Við erum með söngþjálfara og danshöfund.“

Fyrir Símon Grétar, sem er sjálflærður í tónlist, er margt nýtt í Idolinu. „Ég fór aldrei í tónlistarskóla, ég hef tekið eina önn í söngkennslu hér í Hafnarfirði. Maður finnur hvað maður þarf að hafa þegar komið er í Idolið, þetta er nýtt stig og stífar æfingar á öllum sviðum. Það þarf að horfa í myndavélarnar, heilla áhorfendur, syngja vel, spila rétt og fleira. Í fyrsta þættinum var maður að meðtaka allt þetta, nú er maður orðinn rólegri.

Aðalástæðan fyrir að ég skráði mig í Idolið var þó ekki að ég stefndi beint á fyrsta sætið heldur var áhuginn frekar sá að kynnast fólki sem vinnur í kringum tónlistina, kannski að byrja að semja með einhverjum, því draumurinn er að verða tónlistarmaður.“

Mynd: Úr einkasafni


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.