VA áfram í undanúrslit Gettu betur

Lið Verkmenntaskóla Austurlands í Gettu betur mættu liði Fjölbrautaskólans við Ármúla í 8 liða úrslitum á föstudaginn þann 3. febrúar. Lið VA skipa nemendurnir Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Geir Sigurbjörn Ómarsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson. Þau tryggðu sér sigur í vísbendingaspurningunum 29-23 og eru þar með komin áfram í undanúrslit. VA hefur aðeins einu sinni áður komist svo langt í Gettu betur árið 2002.

VA og FÁ mættust líka í fyrstu umferð keppninnar þar sem FÁ hafði betur 25-21. Lið VA komst áfram í 8-liða úrslitin sem stigahæsta tapliðið. Það er líka gaman að segja frá því að einn af þjálfurum FÁ er fyrrum nemandi VA, Guðmundur Kristinn Þorsteinsson sem keppti í Gettu Betur fyrir hönd VA árin 2019 og 2020.

Keppnin hófst á hraðaspurningum og staðan var jöfn að þeim loknum 11-11. Eftir vísbendingaspurningar var staðan 26-23 og með réttu svari í lokalið keppninnar, þríþrautinni hefði lið FÁ getað jafnað. VA náði þríþrautinni og tryggði sér þar með sigurinn 29-23.

Hljómsveitin Dusilmenni sem skipuð er af nemendum VA kom fram sem tónlistaratriði skólans í útsendingunni.

Eins og áður segir skipa þau Ágústa Vala Viðarsdóttir, Geir Sigurbjörn Ómarsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson lið VA. Þjálfari liðsins er Ingibjörg Þórðardóttir. Hún starfar sem kennari í VA.

Það verður spennandi að sjá hvort liðið nái sögulegum árangri með því að komast úr undanúrslitum en þau hafa góðan tíma til æfinga því 8-liða úrslitin halda áfram út febrúar.

Mynd fengin að láni af síðu Verkmenntaskóla Austurlands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.