VA áfram í undanúrslit Gettu betur
Lið Verkmenntaskóla Austurlands í Gettu betur mættu liði Fjölbrautaskólans við Ármúla í 8 liða úrslitum á föstudaginn þann 3. febrúar. Lið VA skipa nemendurnir Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Geir Sigurbjörn Ómarsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson. Þau tryggðu sér sigur í vísbendingaspurningunum 29-23 og eru þar með komin áfram í undanúrslit. VA hefur aðeins einu sinni áður komist svo langt í Gettu betur árið 2002.
VA og FÁ mættust líka í fyrstu umferð keppninnar þar sem FÁ hafði betur 25-21. Lið VA komst áfram í 8-liða úrslitin sem stigahæsta tapliðið. Það er líka gaman að segja frá því að einn af þjálfurum FÁ er fyrrum nemandi VA, Guðmundur Kristinn Þorsteinsson sem keppti í Gettu Betur fyrir hönd VA árin 2019 og 2020.
Keppnin hófst á hraðaspurningum og staðan var jöfn að þeim loknum 11-11. Eftir vísbendingaspurningar var staðan 26-23 og með réttu svari í lokalið keppninnar, þríþrautinni hefði lið FÁ getað jafnað. VA náði þríþrautinni og tryggði sér þar með sigurinn 29-23.
Hljómsveitin Dusilmenni sem skipuð er af nemendum VA kom fram sem tónlistaratriði skólans í útsendingunni.
Eins og áður segir skipa þau Ágústa Vala Viðarsdóttir, Geir Sigurbjörn Ómarsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson lið VA. Þjálfari liðsins er Ingibjörg Þórðardóttir. Hún starfar sem kennari í VA.
Það verður spennandi að sjá hvort liðið nái sögulegum árangri með því að komast úr undanúrslitum en þau hafa góðan tíma til æfinga því 8-liða úrslitin halda áfram út febrúar.
Mynd fengin að láni af síðu Verkmenntaskóla Austurlands