Væri eftirsjá ef búskapur legðist af á Egilsstöðum

Gunnar Jónsson og Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir hafa undanfarna áratugi verið bændur á Egilsstaðabýli en eru að afhenda búskapinn í hendur nýrrar kynslóðar. Gunnar er þar fæddur og uppalin og hefur séð miklar breytingar á Egilsstaðakaupstað og sambýlinu við búskapinn.

„Ég man mjög vel eftir mér sem krakka hér á Egilsstöðum, fyrir 1960. Það voru fáein hús í þorpinu og íbúar varla fleiri en hundrað, ef það náði því. Nielsen húsið var eitt fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var.

Svo voru þarna sjúkraskýlið, kaupfélagið, gamla símstöðin og dýralæknisbústaðurinn. Þetta voru svona helstu húsin. Svo bættust við nokkrir Skriðdælingar og fleira fólk sem byggði í þorpinu, og svo koll af kolli,“ segir Gunnar í viðtali í Austurglugga vikunnar.

Þorpið á Egilsstöðum óx hratt


Egilsstaðabýlið hefur lengi verið meðal stærstu og afurðamestu kúabúa landsins. Það sem gerir það sérstakt er nábýlið við þorpi sem smám saman hefur stækkað. Þegar þorpið stækkar er það gjarnan á kostnað lands frá býlinu.

„Óhjákvæmilegur fylgifiskur uppbyggingarinnar í þorpinu var þörfin fyrir meira byggingarland. Þorpið óx hraðar en nokkurn óraði fyrir. Oftar en ekki var það besta ræktunarlandið sem sóst var eftir, til að mynda undir flugvöllinn.

Um þetta urðu nokkur átök og það endaði með því að land úr jörðinni var tekið eignarnámi, bæði undir flugvöllinn og lóðir í þorpinu. Landbúnaðarumhverfið hefur tekið miklum breytingum síðan; búunum fækkar, þau stækka og krafan um afköst og arðsemi eykst. Allt veltur á því að landið sé frjósamt og búreksturinn í heild hagkvæmur. Egilsstaðajörðin er vissulega land mikil, en nánast allt ræktanlegt land hefur þegar verið nýtt,“ segir Gunnar.

Menningarleg verðmæti í nágrenni þéttbýlis og sveitar


„Ég geri mér grein fyrir því að þar sem þéttbýli þenst út á annað borð, þá er það oftar en ekki á kostnað landbúnaðarjarða í kring. Þær hopa; eru keyptar upp eða teknar eignarnámi. Mér fyndist þó ekki síður eftirsjá í því, sem áhorfandi, að þessi sambúð sveitar og þéttbýlis liði undir lok.

Að mínu mati eru hér bæði söguleg og menningarleg verðmæti í húfi; að jörðin haldist í ábúð og þar sé áfram stundaður landbúnaður. Ég held að það sé líka fólki hollt, ekki síst fyrir börn og ungmenni að vera í nánd við landbúnað; að sjá það með eigin augum hvaðan mjólkin kemur, og svo framvegis. Í gegnum tíðina höfum við fengið fjölmargar heimsóknir skólabarna úr þorpinu, sem koma til að fræðast og vera í nánd við skepnurnar.

Og ég held reyndar að flestir íbúar í Egilsstaðabæ séu sama sinnis, þeir vilja að hér verði áfram stundaður búskapur. Ég held að það væri mikil eftirsjá ef hann legðist af.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.