Væri skelfilegt ef leikfélagið leggðist af vegna streitu
Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir hefur átt stóran þátt í því að endurvekja Leikfélag Norðfjarðar, sem legið hafði í dvala í mörg ár. Hún segir slíka menningarstarfsemi skipta miklu máli fyrir samfélagið en fleiri verði að leggja hönd á plóg eigi það að halda velli til frambúðar.
„Ég hef alltaf haft áhuga á leiklist en það var ekkert starfandi leikfélag á Norðfirðið þegar ég var að alast upp, né heldur þegar ég var í Verkmenntaskóla Austurlands,” segir Þórfríður Soffía sem í dag er formaður Leikfélags Norðfjarðar.
„Vinafólk mitt, þau Helga Ósk Snædal Þórormsdóttir frá Fáskrúðsfirði og Bjarki Ingason fluttu hingað, en segja má að Bjarki hafi verið alinn upp í leikfélagi, fyrst í Mosfellsbæ og svo í Vestmannaeyjum. Hann fór fljótlega að tala um að gaman væri að hafa starfandi leikfélag á staðnum og við héldum fund til þess að kanna grunvöll þess,“ segir Þórfríður Soffía, en skemmst er frá því að segja að Leikfélag Norðfjarðar fór aftur af stað eftir fimmtán ára hlé árið 2013.
„Á þessum tíma var ég alveg blaut á bak við bæði eyrun og kunni lítið sem ekkert. Við réðum til okkar leikstjóra fyrstu árin. Á öðru leikári settum við upp farsann Skvaldur og þá var Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir með okkur, en auk þess að leikstýra, skólaði hún okkur til og hjálpaði okkur við að gera félagið að því sem það er í dag.“
Árið 2015 ákváðu þær Þórfríður Soffía og Helga Ósk að taka málin í sínar hendur og sóttu báðar leikstjórnarnámskeið í skóla Bandalags íslenskar leikfélaga, Þórfríður Soffía fór þrjú sumur í röð og Helga Ósk tvö og hafa þær báðar leikstýrt síðan. Helga hefur leikstýrt tveimur stórum sýningum, annarri í samvinnu við Þórfríði Soffíu, og einnig smáverkum. Þórfríður Soffía hefur leikstýrt fjórum stórum sýningum ásamt smáverkum.
Streita innan stjórnarinnar
Þórfríður Soffía segir að árin í leikfélaginu hafi verið gefandi og skemmtileg en á sama tíma reynt verulega á. Hún segir að farið sé að bóla á ákveðnum streitumerkjum innan stjórnarinnar.
„Það voru líklega um tuttugu manns sem fóru af stað í þetta með okkur í upphafi, en það hefur að mestu verið átta manna stjórn sem hefur borið hitann og þungan af starfinu. Mér finnst þó í fyrsta skipti núna að fólk sé að vakna til vitundar og vilji koma inn og starfa með félaginu. Okkur bráðvantar alltaf fólk, ekki síst til þess að minnka álagið á stjórninni. Það er erfitt til lengdar fyrir stjórnarmeðlimi að vera allt í öllu, við skipulagningu, styrkbeiðnir, markaðssetningu, uppsetningu og jafnvel leikstjórn og leik. Það er mikið, sérstaklega þegar allt starf er í sjálfboðavinnu. Það er í svo mörg horn að líta með starfsemi sem þessari, þetta snýst ekki bara um að standa á sviðinu og leika heldur einnig tækinmál, sviðs- og búningahönnun, förðun og fleira, þannig að allir ættu að finna hlutverk við sitt hæfi.
Við ætlum þó ekki að gefast upp. Leikfélagið skipir samfélagið miklu máli og það væri skelfilegt ef það legðist af vegna streitu. Það væri slæmt ef unga fólkið sem er að koma úr VA og hefur alist upp í leiklist hefði ekkert annað til að ganga inn í. Við stefnum á stuttverkasýningu í vor, en breytingar á Egilsbúð hafa meðal annars gert það að verkum að við setjum ekki upp stóra sýningu þetta árið.
Okkur langar að athuga hvort ekki sé grundvöllur fyrir samvinnu með leikfélögum í öðrum byggðakjörnum sveitarfélagsins, eins og á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Þar eru leikfélög sem liggja í dvala og ekkert sem stendur í vegi fyrir því að virkja áhugasamt fólk og setja upp sýningu undir merkjum þessara félaga í samvinnu. Fjarðabyggð er eitt stórt sveitarfélag og nú þegar þessi fínu göng eru komin á milli væri ekkert því til fyrirstöðu. Við höfum rætt þetta og erum virkilega spennt að fá fleiri til samvinnu við okkur.“
Aðspurð að því hvort stjórnin finni fyrir stuðningi og áhuga á starfi félagsins innan bæjarmálanna segir Þórfríður Soffía; „Ég get nú ekki sagt það. Við höfum undantekningalítið þurft að leita eftir því sem við þurfum að vita. Ég man eftir einu símtali, þar sem einhver hringdi og sagðist langa að spjalla um leikfélagið, en svo varð ekkert úr því einu sinni. Ég efast um að fólk almennt viti mikið um starfsemi félagsins eða átti sig á þeirri miklu vinnu sem þar fer fram í sjálfboðastarfi. Við höfum þó fengið að vera með æfingaaðstöðu og geymslu í Egilsbúð okkur að kostnaðurlausu, en borgum leigu fyrir sýningardaga.“