Varðstjórinn sem tryllti lýðinn

Hljómsveitin Gildran kom saman á ný í ár eftir hlé og spilaði á nokkrum tónleikum, meðal annars Bræðslunni. Hljómsveitin kemur upphaflega úr Mosfellsbæ en einn meðlima hennar hefur búið lengi á Austurlandi. Það er bassaleikarinn Þórhallur Árnason á Eskifirði sem starfar sem aðalvarðstjóri hjá lögreglunni.

Þórhallur og Karl Tómasson, trommuleikari, kynntust árið 1977 í Lúðrasveit Mosfellsbæjar og stofnuðu saman sína fyrstu hljómsveit, Venus.

„Nokkru síðar var hljómsveitin Cosinus stofnuð og spiluðum við þar dansmúsik víða á börum og klúbbum í Reykjavík. Tveimur árum síðar kom Birgir (Haraldsson, söngvari) á hljómsveitaræfingu hjá okkur og sveitin Sextett Bigga Haralds sett á laggirnar. Sú spilaði á böllum um allt land.

Þegar við vorum búnir að fá nóg af því snérum við okkur að eigin tónlist undir nafninu Pass áður en það breyttist svo í Gildruna nokkru síðar,“ segir Þórhallur um tilurð Gildrunnar, sem hefur starfað frá árinu 1985.

Fengu samning í Bretlandi


Einhver gæti haldið að að baki nafninu Gildran sé djúp og merk saga enda óvenjulegt hljómsveitarnafn. Karl kom með þetta nafn á hljómsveitina og Birgi og Þórhalli leist vel á það. „Við fórum til Bretlands á sínum tíma en eiginlega það fyrsta sem við gerðum sem hljómsveit var að landa plötusamningi þar 1985, hjá Prism Records. Árið áður vorum við í upptökum á nýju efni í Sheffield sömu helgina og Live Aid tónleikarinir voru. Það gerðist gegnum breska félaga okkar sem við kynntumst í Mosfellsbænum. Við héldum út með nokkur lög í þyngri kantinum og tókum þar upp. Árið 1985 fórum öðru sinni til Englands að taka upp og umræddur plötusamningur kom í kjölfarið. Þar voru tvö popplög tekin upp sem gefa átti út í kjölfarið.“

Þegar ekkert bólaði svo á útgáfu plötunnar í Bretlandi ákváðu þeir að halda í hljóðver hér heima. „Við vorum orðnir vondaufir um hlutina þarna úti svo við skelltum okkur í hljóðverið Stemmu og tókum upp plötuna Huldumenn á tæpum sólarhring. Heitið vísaði til þess að við vorum lítt þekktir á þessum tíma. Platan var gefin út í frekar litlu upplagi en seldist upp og er ófáanleg. Sveitin minnir mig hafa í heildina gefið út einar sjö plötur og kannski verða þær átta áður en yfir lýkur. Það verður þó að segjast að þessi ævintýratúr til Bretlands hafði eitt og annað gott í för með sér og þar kannski ekki síst að þar kynntist ég konunni minni.“

Ánægð á Austurlandi


Sökum starfs síns sem varðstjóri og síðar aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi þurfti Þórhallur að hverfa frá bandinu á stöku stundum en hann hóf störf á Eskifirði árið 1993. „Það starf var auglýst á þessum tíma og okkur fjölskyldunni leist vel á að breyta til og prófa að fara út á land. Það er nokkuð sem hvorki ég né konan mín höfum séð eftir enda afar gott að vera hér og ýmis lífsgæði sem ekki eru auðfundin fyrir sunnan. Til dæmis förum við mikið á skíði og að hafa fyrirtaks skíðasvæði í tíu mínútna fjarlægð er sannarlega lífsgæði í mínum huga.“

Aftur tók hann sér hlé þegar hann bauð sig fram til friðargæslustarfa og kosningaeftirlits í Bosníu og síðar í Srí Lanka en það varði um þriggja ára skeið. „Það var auglýst eftir lögreglumönnum til þessara starfa tímabundið og mér fannst það spennandi sem og það var. Auðvitað mjög frábrugðið þeim störfum sem við unnum hér heima og ég varð vitni að ýmsu miður góðu en þetta lífsreynsla sem ég bý enn að.“

Þórhallur alls ekki á förum frá Eskifirði þar sem hann og fjölskyldan unir lífinu. En ekki er útilokað að hann gefi sér meiri tíma með Gildrunni eftirleiðis. „Starfið er bæði gefandi og skemmtilegt auk þess sem fjölskyldan er búin að skjóta hér rótum fyrir löngu síðan og hér ljúft og gott að búa. Hugsanlega gerum við sem band eitthvað meira en slíkt verður tíminn að leiða í ljós.

Við erum nokkuð reglulega í sambandi og hver og einn okkar að fikta eitthvað í tónlist í og með öðru. Við eigum nú þegar nokkuð af nýju efni sem er hugsanlegt að við gefum út á næstunni. Hvort það verður heil plata eða ekki verður svo að koma í ljós en við erum sannarlega aðeins að vakna til lífsins aftur ef svo má að orði komast og það er meiri spenna í mannskapnum en verið hefur lengi.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar