„Veit ekki hvað ég get nema láta á það reyna“
Fyrir áratug tók Barbara Grilz þá ákvörðun að segja upp vinnunni sem flugvélavirki hjá Lufthansa og flytja til Íslands. Hún settist síðar að á Fáskrúðsfirði og segist enn þeirrar skoðunar að hún hafi tekið rétta ákvörðun. Hún hefur þó fært sig úr fluginu yfir í myndlist.„Árið 2012 kom ég hingað í tveggja vikna frí. Þá höfðu landslagið og krafturinn sem býr í jörðinni dregið mig hingað. Mér leið eins og sál mín ætti hér heima og ég myndi ekki fara aftur til Þýskalands. Ég upplifði að ég væri loks frjáls. Mér fannst önnur orka í landinu og ég hef talað við fleiri útlendinga sem hafa flutt hingað og eru sömu skoðunar.“
Barbara hafði þá unnið í rúm 20 ár sem flugvirki hjá Lufthansa í München. Sú vinna er lýjandi, stöðugt kapphlaup við tímann að gera vélarnar klárar í loftið. Hún segist hafa verið farin að finna fyrir leiða í vinnunni, sem leiddi af sér fleiri veikindadaga en áður, nokkuð sem yfirmenn hennar gerðu sér grein fyrir og reyndu að hjálpa henni með. Henni var boðið skrifstofustarf en hún afþakkaði það, vildi ekki missa af samskiptunum við fólkið.
Seldi allt sitt í Þýskalandi
Að því kom þó að hún samdi um að hætta haustið 2015. Hún seldi Benz-inn sinn en keypti Nissan-jeppa og keyrði hana um borð í Norrænu ásamt hafurtaski sínu.
„Ég tók mér þá tvo tíma í ferðalög, dvaldi meðal annars hér á Fáskrúðsfirði í Kaupvangi í fimm vikur og leitaði mér að vinnu árið eftir. Ég fór aftur til Þýskalands í desember og tók þar ákvörðunina um að flytja til Íslands. Ég ákvað um leið að selja íbúðina mína og allt annað sem ég gæti selt.“
Barbara fluttist svo til Íslands í febrúar 2016. Hún fékk fyrst vinnu á Vattarnesi, þar sem hún segist hafa kunnað vel við sig en síðar á gistiheimili á Selfossi þar sem gekk ekki jafnvel. „Það er eina starfið sem ég hef verið rekin úr á ævinni. Þar kynntist ég fyrst muninum í samfélagsgerðinni á Íslandi og Þýskalandi. Hér er hægt að henda þér út en í Þýskalandi hefurðu alltaf minnst viku í uppsagnarfrest.“
Barbara varð um leið heimilislaus en fékk inni hjá íslenskri vinkonu sem hún hafði kynnst árið áður. Móðir hennar hafði pantað sér Íslandsferð í september og þá ferðuðust mæðgurnar saman um landið. Barbara segist þá hafa verið búin að ákveða að fara frá Íslandi. Hún hafi fengið að vera á Vattarnesi meðan hún beið þess að fara aftur með ferjunni til baka í október.
Þar kynntist hún Jónasi Benediktssyni, sem þá var nýbúinn að kaupa bæinn Ljósaland sem stendur rétt fyrir innan þéttbýlið í Fáskrúðsfirði. Hann vildi gera húsið þar upp og leigja það út til ferðamanna og sannfærði Barböru um að stýra rekstrinum.
Hún var því í Þýskalandi um veturinn en kom aftur um vorið til að ljúka endurbótum á húsinu með Jónasi. Þau leigðu út tvö herbergi á neðri hæðinni og fengu fyrstu gestina í júlí 2017 en bjuggu sjálf á efri hæðinni. Þau voru með gistinguna í þrjú ár en Barbara segir að þá hafi verið komið gott og þau búa núna tvö í öllu húsinu.
Myndlistarnámskeið í 40 ára afmælisgjöf
Síðustu ár hefur Barbara hallað sér að myndlistinni. Hún gerir einkum vatnslitamyndir og sækir oft efniviðinn í íslenska náttúru. Póstkort með lundateikningum eru hennar vinsælasta afurð.
„Þegar ég var að teikna sem barn kom mamma mín og spurði brúnaþung hvað þetta ætti að vera. Ég var ekki tilbúinn að heyra slíkt of oft þannig ég hætti fljótlega. Ég var farinn að nálgast fertugt þegar ég fór með mömmu á sýningu hjá þekktum þýskum myndlistarmanni. Á sýningunni var líka auglýsingabæklingur um námskeið sem hann hélt. Námskeiðið var býsna dýrt en ég hugsaði með mér að það gæti orðið góð fertugsafmælisgjöf. Ég hélt svo upp á afmælið mitt þar sem ég og þáverandi sambýlismaður minn stóðum fyrir uppboði. Ágóðinn dugði akkúrat fyrir námskeiðsgjaldinu.
Ég hafði það ágætt fyrsta veturinn á Íslandi en svo fór mér að leiðast og þá dró ég aftur fram vatnslitina. Ég færði mig hins vegar í aðra tækni þar sem litirnir flæða meira. Ég teiknaði lunda og gerði póstkort sem seldist í einum 200 eintökum á Álfakaffi á Borgarfirði. Ég vildi hins vegar gera meira og skráði mig því á fjarnámskeið. Þar lærði ég líka að nota mismunandi pensla. Samhliða þessu þróaði ég með mér þann stíl sem ég hef í dag.
Ég mála fyrst og fremst fyrir sjálfa mig. Ef myndin lukkast vel þá líður mér næstu tvo daga. Gleðin var ekki jafn mikil fyrsta árið, þá fóru níu af hverjum tíu myndum beint í ruslið, sem var sárt því ég nota sérstakan vatnslitapappír sem er dýr.“
Skiptir mestu að myndirnar veki ánægju
Fyrir tæpri viku opnaði Barbara sýningu á verkum sínum í Gallerý Kolfreyju á Fáskrúðsfirði. Þeirri sýningu lýkur á sunnudag. Kolfreyja er handverksmarkaður Fáskrúðsfirðingar hýstur í gömlu húsi í bænum.
„Þetta er fallegt hús með góðum anda og mér finnst myndirnar mínar passa vel inn í það. Það er alltaf einhver þeirra sem kallar fram bros hjá fólkinu sem kemur þangað inn og brosið er það sem skiptir mig mestu máli. Mér finnst enn betra ef fólk segir eitthvað fallegt um myndirnar mínar og allra best ef það kaupir þær, en það er þó ekki aðalmálið.“
Í vinnustofu hennar má sjá margar myndir úr íslenskri náttúru, einkum af lundanum. Það endurspeglar þó ekki í hversu miklu uppáhaldi hann er. „Ég ætla ekki að mála fleiri lundamyndir en ég gerði þær fyrir póstkort sem eru seld víða hér á Austfjörðum. Ég gerði þau til að hafa smá tekjur af áhugamálinu. Það er samt fyndið hvað fólk vill kaupa það sem það sér, þau seljast ekkert þá mánuði sem lundinn er ekki hér.
Tómleikinn er það sem heillar mig mest við íslenskt landslag, en fólki þykir hann ekki heillandi í málverkum. Þess vegna reyni ég að glæða það lífi með grasi og lækjum eða bláum himni. Það kemur mér oft á óvart hvað ég get málað og mér finnst gaman að sýna fólki það.“
Skrifaði bók um flugvöllinn
Barbara segir tilviljanir hafa leitt hana inn í flugið. „Ég hef alltaf sagt að ef ég prófa ekki það sem mig langar að gera, þá viti ég ekki hvort ég geti það. Ég hætti á sínum tíma í skóla þegar ég hafði fengið nóg en réði mig sem rafvirkjanema hjá KraussMaffei, sem framleiðir vélar sem móta plast og gúmmí, en hafa einnig framleitt Leopard skriðdrekana.
Ég vann í deildinni sem gerði plastmótunarvélarnar en við vorum í stóru húsnæði og í næsta bili var verið að prófa dráttarbíla fyrir flugvélar. Þeir voru með vélar úr Leopard 2 skriðdrekunum og voru ótrúlega háværir. Ég var forvitin og gægðist fyrir hornið. Þar blasti „Lufthansa“ orðið við mér og það kviknaði hjá mér hugmynd um hvort flugfélagið vantaði ekki manneskju eins og mig, þannig ég sendi því starfsumsókn. Hálfu ári síðar bauðst mér samningur hjá því en ég átti þá ekki von á að ég yrði þar í 27 ár.“
Barbara byrjaði að vinna hjá Lufthansa á Riem-flugvelli við München. Sá völlur af aflagður þegar hún hafði starfað þar í þrjú ár, en hún tók ástfóstri við hann og gaf síðar út bók um völlinn. „Ég skrifaði bókina því það voru til svo margar góðar sögur frá Riem. Ég vann þar bara í þrjú ár en ég náði í skottið á andanum sem ríkti þarna og hugsa stundum um þetta sem gömlu góðu dagana.
Þú gast farið út um allt á vellinum, við vorum vissulega með starfsmannakort en þurftum þau aldrei því öryggisverðirnir þekktu okkur. Núna er allt morandi í öryggishliðum. Starfsfólkið á flugvellinum var eins og ein stór fjölskylda. Í því voru mannlegir breyskleikar en það skapaði líka sögur sem ekki er annað hægt en að hlægja að í dag.
Eitt sinn var Ferrari-bíl stolið um hábjartan dag úr komusalnum þar sem hann var til sýnis uppi á palli. Þjófarnir fengu meira að segja öryggisvörð til að hjálpa sér, sögðust vera búnir að gleyma hvernig þeir opnuðu dyrnar og eitthvað þess háttar. Síðan keyrðu þeir bara út.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.