„Við ætlum að halda kveðjupartý fyrir bekkjarsystur okkar“

„Mig langaði bara að segja frá því hvað mjólk væri holl og mikilvægt fyrir alla að drekka hana. Mér fannst guli liturinn koma fallega út,“ segir Ágúst Bragi Daðason, nemandi í fjórða bekk Fellaskóla í Fellabæ, en hann á eina af tíu verðlaunamyndum í árlegri teiknisamkeppni barna í 4. bekk sem haldin er af Mjólkursamsölunni.


Mjólkursamsalan hefur staðið fyrir teiknikeppninni í mörg ár og er nemendum frjálst að taka þátt. Að þessu sinni bárust rúmlega 1.400 myndir bárust frá 60 skólum alls staðar að af landinu.

„Myndefnið í keppninni er frjálst en má gjarnan tengjast mjólk, hollustu og heilbrigði og er virkilega gaman að sjá þá miklu hugmyndaauðgi sem nemendurnir búa yfir. Nemendurnir eru í 4. bekk og því ekki nema 9 og 10 ára gamlir og frábært að sjá hversu hæfileikaríkir þeir eru og hve mikinn metnað margir leggja í myndirnar sínar,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðsfulltrúi MS og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar.

Vegleg peningaverðlaun
Verðlaunahöfum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 króna peningagjöf frá Mjólkursamsölunni sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi.

Er sjálfur duglegur að drekka mjólk
Að þessu sinni tóku allir nemendur 4. bekkjar í Fellaskóla þátt í keppninni. Mynd Ágústs Braga er sérlega litrík og falleg. Ágúst Bragi, sem segist sjálfur vera duglegur að drekka mjólk, segir að búið sé að ákveða hvað verði gert við verðlaunaféð.

„Við ætlum að halda kveðjupartý fyrir bekkjarsystur okkar sem er að flytja. Hún er hálfensk og hálfíslensk og er að flytja til Nýja-Sjálands. Við erum samt ekki alveg búin að ákveða hvenær það verður.“







Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar