![](/images/stories/news/2016/Útikennsla_á_Djúpavogi2.jpg)
„Við elskum þennan hjara“
Síðustu dagar skólaársins í Grunnskóla Djúpavogs voru nýttir til útikennslu sem heppnaðist vel og vakti mikla lukku meðal nemenda og kennara.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri, segir að við gerð skóladagatals ársins hafi sú hugmynd komið fram að vera með óhefðbundna kennslu síðustu tvær vikur vetrarins í stað þess að sitja inni þegar farið væri að vora.
„Undanfarin fimmtán ár höfum við haft svokallaða Vordaga síðustu þrjá til fjóra daga skólaársins, en nú bættum við um betur og höfðum heila viku sem við tileinkuðum útikennslu, til viðbótar Vordögunum.
Fyrirkomulagið var þannig að við útbjuggum átta mismunandi stöðvar og skiptum nemendum í sex hópa, þvert á bekki og þannig röðuðust nemendur frá 1. upp í 10. bekk saman. Hóparnir skiptust á svo þannig að þeir unnu tvö mismunandi verkefni á dag í fjóra daga, alls átta verkefni. Elstu nemendur leikskólans hafa verið með okkur hálfan daginn, útikennsluvikuna og þessa síðustu kennsluviku skólaársins sem er að klárast,“ segir Halldóra.
Nemendur unnu afar fjölbreytt verkefni þessa viku, svo sem við gróðursetningu, fóru í ratleik, settu upp útieldhús, fræddust um örnefni í þorpinu og skoðuðu eggin í Gleðivík.
Nemendur 6. og 7. bekkjar tóku ekki þátt í útikennsludögunum sem voru fjórir, heludr r fóru með náttúrufræðikennaranum sínum í jarðfræðiferð suður í Hornafjörð og alla leið að Jökulsárlóni.
Allir glaðir og þreyttir eftir ánægjulega viku
Útikennsluvikunni lauk á föstudeginum með sameiginlegri gönguferð allra „út á sanda“ sem í raun heita Úlfseyjarsandar.
Það er mál manna að vikan hafi heppnast einstaklega vel þó að sjálfsögðu hafi nokkrir hnökrar hafi komið uppá sem við ætlum að lagfæra fyrir næsta ár. Nemendur lærðu margt nýtt um sitt nánasta umhverfi og starfsfólkið líka. Veðrið var mjög gott fyrstu tvo dagana en vindasamt þá síðustu þrjá en við létum það ekki slá okkur ú taf laginu. Við búum nú einu sinni á Íslandi og við hér á Djúpavogi á ysta tanga, á hjara veraldar. En við elskum þennan hjara og erum staðráðin í því að endurtaka leikinn að ári,“ segir Halldóra.