„Við erum bara eins og ein stór fjölskylda“

Aðeins voru sextán nemendur við Grunnskólann á Breiðdalsvík í vetur, en skólanum var slitið síðastliðinn laugardag.



„Við bíðum bara eftir öllum íbúunum sem vilja búa hjá okkur og vonandi kemur einhver ný fjölskylda til okkar því hér er verulega gott að búa,“ segir Sif Hauksdóttir, skólastjóri og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála Breiðdalshrepps.

Nemendur við skólann voru aðeins sextán talsins í vetur og skiptust þeir á allar bekkjadeildir. Mikil áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám og að allir standi saman.

„Oftar en ekki skiptum við nemendum í tvo hópa, en stundum þrjá. Það gefur auga leið að við þurfum að einblína ennfrekar á einstaklinginn heldur en bekkinn og þá reynir á þessa einstaklingsmiðuðu kennslu og fjölbreytnin verður mikil.“

Sif segir að þó svo að fámennið hafi marga kosti kalli það einnig á ókosti.

„Það er stundum erfitt að vera einn í bekkjadeild eða ef að vinur þinn er lasinn og þú hefur engan til þess að leika við. Að öllu jöfnu gengur hópnum ótrúlega vel að vinna saman, þetta eru svo flottir og duglegir krakkar, við erum bara eins og ein stór fjölskylda.


Velja hrós vikunnar á miðvikudögum

Mikil áhersla er lögð á sýnileika þeirra verkefna sem nemendur vinna að innan skólans sem og að hrósa hvert öðru í dagsins önn.

„Við höfum vanið okkur á að flagga afrakstri vinnunnar, það er gaman að setja hana verkefnin upp á vegg, það bæði gleður skólann og krakkarnir verða stolt.

Í vetur höfum við einnig verið að æfa okkur í því að horfa á allt það jákvæða í kringum okkur, bæði í skólanum og í samfélaginu utan hans.

Við söfnum hrósmiðum í kassa alla vikuna og höfum hist á miðvikudagsmorgnum, lesið allt saman og valið einn miða í sameiningu og hengt upp á vegg. Við erum öll mjög ánægð með þetta verkefni og það hefur aukið meðvitund allra um mikilvægi hróssins.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar