„Við erum strax farin að skipuleggja Eistnaflug 2019“

„Hátíðin gekk bara rosalega vel og allir eru glaðir og hamingjusamir eftir,“ segir Magný Rós Sigurðardóttir, nýráðin framkvæmdastýra þungarokkshátíðarinn Eistnaflugs sem haldin var í Neskaupstað síðastliðna helgi.


Magný Rós hefur nú tekið við framkvæmdastjórn hátíðarinnar af Karli Óttari Péturssyni, nýráðnum bæjarstjóra Fjarðabyggðar. Í samtali við Austurfrétt fyrir helgi sagði Karl Óttar að framtíð hátíðarinnar ylti á mætingunni í ár þar umtalsvert fjárhagslegt tap hafi orðið af henni í fyrra. Ef mæting yrði einnig dræm í ár væru það skilaboð um að hátíðin væri ekki málið.

„Mætingin var orðin mjög góð á laugardagskvöldið og við erum rosalega sátt, allt gekk eins og best verður á kosið. Við munum halda ótrauð áfram og erum strax farin að skipuleggja Eistnaflug 2019 og erum verulega spennt.“

Engar stórfelldar uppákomur
Aldrei hafa alvarleg mál komið upp á Eistnaflugi, en slagorð hátíðarinnar er „Ekki vera fáviti“. „Það voru engar stórfelldar uppákomur hjá okkur í ár og þannig ætlum við að hafa það áfram. Við vorum með kærleikssveit sem gekk um og knúsaði fólk sem virtist stefna í það að verða fávitar. Það svínvirkaði og fólki rann strax reiðin þegar það fékk gott faðmlag. Við stefnum á að vera með ennþá stærri og öflugri sveit að ári.“

Roknasala á After-Sun
Magný Rós segir veðrið ekki hafa skemmt fyrir gleðinni. „Það var alveg yndislegt og við nýttum okkur það óspart til þess að hvetja höfuðborgarbúa til þess að koma austur í sólina og D-vítamínið, enda var roknasala á After-Sun í búðunum.“

Ljósmynd: Eistnaflug


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar