Við höfum trú á okkur
Verkmenntaskóli Austurlands komst í undanúrslit Gettu betur ásamt Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og Fjölbrautaskóla Suðurlands. VA mun mæta Fjölbrautaskóla Suðurlands í undanúrslitum og því ljóst að skóli af landsbyggðinni muni keppa til úrslita. VA mætir FSu þann 10. mars þar sem skólarnir keppa um sæti í úrslitum. Úrslitin munu fara fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
Lið VA skipa þau Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Ragnar Þórólfur og Geir Sigurbjörn Ómarssynir. Ágústa Vala Viðarsdóttir er dóttir Viðars og Þórhöllu á Hofi í Norðfirði. Ágústa Vala segir gott að vera með tvíburunum í liði. „Sérsviðið mitt eru plöntur og fuglar,” segir Ágústa Vala.
Ragnar hefur verið í Gettu betur liði VA síðustu 2 ár og komst í sjónvarpið í fyrra. Þá var Geir varamaður í liðinu. Þetta árið eru þeir báðir í liðinu. Ragnar segir að það sé gaman að vera með Geir í liði. „Við höfum alltaf haft gaman af spurningaleikjum og getum hjálpað hvor öðrum að æfa heima, okkur finnst þetta bara skemmtilegt,” segir Ragnar.
Geir segir gott að vera með bróður sínum í liði. „Við þekkjum vel inn á hvorn annan og vitum hver okkar getur svarað hverju,” segir Geir. Geir segir sitt sérsvið líklega vera íþróttir en Ragnar segir sitt sérsvið klárlega vera landafræði.
Geir segir stemninguna í liðinu góða. „Það er góð stemning í liðinu fyrir undanúrslitunum og við höfum trú á okkur”.
Ingibjörg Þórðardóttir, kennari í VA og þjálfari liðsins, hvetur fólk til þess að búa til spurningar fyrir liðið. „Svo vil ég hvetja ykkur kæru Norðfirðingar og aðrir að búa til spurningar fyrir okkur. Við erum á fullu að æfa og tætum ansi hratt í okkur allt sem við komust í. Hraðaspurningar og þó sérstaklega bjölluspurningar eru vel þegnar."