Vilja rannsaka hvort hætta geti steðjað að Lagarfljótsbrú

egilsstadiroglagarfljot.jpgBæjarráð Fljótsdalshéraðs hefur óskað eftir samstarfi við Vegagerðina og Landsvirkjun um framkvæmd frekari rannsókna í Lagarfljóti. Ástæðan er áhyggjur af því að ísmyndun og krapastíflur ógni Lagarfljótsbrú og því þurfi að rannsaka þessa þætti auk vatnsrennslis fljótsins. Málið var fyrst tekið upp við forstjóra Landsvirkjunar í febrúar sl. þegar fór að bera á krapastíflum við brúna og hærra vatnsborði en útreikningar höfðu gert ráð fyrir.

Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, sagði í samtali Austurgluggann að menn hafi vaknað upp við það sl. vetur að klakahröngl myndaðist við brúna. Á þeim tíma hafi vatnsborð verið hátt í fljótinu og þetta valdið áhyggjum. Heitavatnslögnin frá Hitaveitu Egisstaða og Fella liggi m.a. þarna í gegn og auk þess skelfilegt að missa samgöngumannvirkið ef það færi. ,,Ákveðin forvörn felst í að skoða þetta vel, því við höfum ekki séð þessar aðstæður áður og elstu menn ekki heldur," sagði Eiríkur. Því var óskað eftir fundi með Vegagerð og Landsvirkjun, sem hafa skipað fulltrúa til viðræðna við yfirstjórn Fljótsdalshéraðs um málið. Sá fundur hefur þó enn ekki verið haldinn.

Víkka þarf farveg Lagarfljóts

,,Við þurfum að vita hvort ástandið við brúna í fyrra hafi verið einstakt fyrirbæri eða hvort von er á slíku aftur. Jafnframt hafa þessir aðilar upplýsingar fyrir okkur og í framhaldi væri hægt að taka ákvörðun um hvort grípa þurfi til ráðstafana. Klakahrönglið varð áberandi við brúna á svipuðum tíma og hækkaði í fljótinu og því tengist þetta einnig viðræðum við Landsvirkjun og Vegagerð um hvort vatnshæðin sé ekki hærri og straumurinn meiri en reiknað var með. "

Eiríkur segir að aftur þurfi að taka upp umræður um hvort víkka þurfi farveg Lagarfljóts, t.d. við Straum, til að vatnið komist betur í gegn. Tappi sé greinilega í farveginum. ,,Nú eru þetta praktískir hlutir sem þarf að fást við, áður voru þetta aðeins tölur á blaði." Eiríkur hefur kynnt iðnaðarráðherra að skoða þurfi nánar farveg fljótsins m.t.t. víkkunar og óskað eftir að fulltrúi ráðuneytisins komi að þeirri vinnu. Jafnframt þykir ástæða til að fá fulltrúa frá umhverfisráðuneyti að málum, því á sínum tíma heimilaði þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, ekki útvíkkun á farvegi Lagarfljóts. Því gæti þurft að taka upp umhverfismat.

Ný Lagarfljótsbrú er á samgönguáætlun 2011. Skv. aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs er tillaga um nýtt brúarstæði og brú. Lending austan megin verði u.þ.b. þar sem lægi ferjunnar Lagarfljótsormsins er í dag, en lending norðan megin á svipuðum stað og nú er.

Á morgun, laugardag, verður opin kynning á drögum að aðalskipulagstillögu Fljótsdalshéraðs. Fulltrúar ráðgjafa og sveitarfélagsins munu kynna drögin og þá stefnu sem í henni felst. Að því loknu verður efnt til umræðna með gestum fundarins. Fundurinn hefst í Valaskjálf, Egilsstöðum, kl. 13.

 

 

Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.