„Viljum hvetja fólk til að hlúa að sjálfu sér“

Á þessum undarlegu tímum sem við lifum er mikilvægara en nokkru sinni að huga að okkur sjálfum og okkar nánustu. Margar stoðir samfélagsins, svo sem skólar og íþrótta- og ungmennafélög, hafa svo sannarlega þurft sníða sér stakk eftir vexti og finna nýjar leiðir í starfinu.

Ungmennafélagið Þristur á Fljótsdalshéraði er þar engin undantekning og blés til leiks þann 17. mars síðastliðinn verkefni sem gengur út á að setja daglega inn „pepp“ myndbönd á Facebooksíðu sína.

Uppörvandi innslög

„Við erum í raun að mæta samfélaginu á þessum skrítnu tímum sem við lifum og við viljum líka vekja athygli á að það skiptir bara ofsalega miklu máli núna að hlúa að sér, bæði líkamlega og andlega. Hlúa að sínum nánustu og halda áfram að brosa og vera jákvæður,“ segir Hildur Bergsdóttir stjórnarmaður í UMF Þristi.

Innslögin sem ungmennafélagið hefur verið að setja inn tengist einmitt þessu. „Við fáum fólk í samfélaginu okkar í lið með okkur til að vera peppari dagsins. Til dæmis innslög frá foreldrum sem deila hugmyndum hvernig er hægt að leika með börnunum sínum úti í garði, núna þegar skólastarf er skert. Í fyrsta myndbandinu var til dæmis  sálfræðingur með innslag um jákvæða sálfræði.“

Hildur segir að meira verði á boðstólum, svo sem jógaæfingar og allskonar æfingar sem hægt er að gera inni hjá sér. „Allt mögulegt sem gengur út á að hvetja fólk til að vera virkt áfram.“

Hvað er hægt að gera?

„Öll önnur ungmennafélög í landinu eru farin að hugsa um hvað er hægt að gera í þessum aðstæðum og jafnframt hvað má og hvað má ekki gera. Mögulega þurfum við að draga saman í venjulegri starfsemi í æfingum og slíku en eitthvað á borð við þetta getur komið í staðinn“

Hún segir innslögin vera fyrir fólk á öllum aldri, börn og fullorðna. „Fólk fer þarna inn til þess að finna „pepp“ dagsins og efnið verður miðað við allt mögulegt; líkamlegt, andlegt og félagslegt. Allskonar frá fólki fyrir fólk úr öllum áttum.“

Allir til í leggja hönd á plóg

Hildur segir að það hafi verið mjög auðvelt að fólk til þátttöku og vera með innslög. „Ég er bara svo heppin að vera vel tengd og er búin að níðast á vinalistanum mínum. Við erum líka búin tala við fólk sem við vitum að er að gera góða hluti.

Það er fullt af fólki búið að segja já og við erum því mjög bjartsýn á að geta haldið dampi á meðan samkomubannið stendur yfir. Vonum bara að það dragist ekki á langinn,“ segir Hildur og hlær.

Hvetja til sýnilegrar virkni

Ofan á þessi innslög er UMF Þristur  með myllumerkjaleik (e. hashtag) þar sem fólk á að taka mynd af sér framkvæma þau verkefni sem peppari dagsins leggur til.

„Jákvæði sálfræðingurinn setti til dæmis fram verkefni þar sem fólk er hvatt til að gefa gaum þremur jákvæðum hlutum sem höfðu gerst yfir daginn. Taka mynd og myllumerkja hana #þristurblæstilleiks eða #umf3.

Á miðvikudögum munum svo draga út innsendum myndum og veita þeim skemmtilega vinninga. Með þessu erum við líka að hvetja til sýnilegrar virkni og vinna á móti endalausum Covid stöðufærslum. Við viljum frekar dreifa einhverju jákvæðu út í samfélagið.

Hildur Bergsdóttir, stjórnarmaður í UMF Þristi. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar