Vill eiga í heilbrigðu ástarsambandi við ástina

Héraðsbúinn Tara Ösp Tjörvadóttir er sjálfstætt starfandi ljósmyndari en er þess utan alltaf að skrifa ljóð. Hún er nú að senda frá sér sína fyrstu ljóðabók sem fjallar um ferli ástarinnar, allt frá fyrstu kynnum, í gegnum ástina, hjartabrotið og vöxtinn sem sársaukinn getur alið af sér.

„Ég uppgötvaði það snemma á síðasta ári, í tíma hjá sálfræðingi, að ég væri sennilega ástsjúk. Ég ákvað þess vegna að fara í andlegt ferðalag til baka, gegnum öll ástarsamböndin mín og leita að því hvaða lærdóm ég gæti dregið af þeim, í von um að geta einn daginn átt í heilbrigðu ástarsambandi við ástina.“

Meðfram þessu fór Tara að skrifa daglega niður orð og ljóð. Hún notaði Notes forritið í símanum sínum til þess að festa hugmyndirnar niður um leið og þær komu og deildi síðan skrifunum reglulega á Instagram. Bókin er byggð á þessum skrifum og einnig dagbókarfærslum sem hún byrjaði að skrifa þegar hún var að uppgötva að hún væri samkynhneigð og fann í fyrsta skipti hvað það var að vera ástfangin.

 

Með gamlan kennara fastan í höfðinu

Hún segir að það sé mjög hjálplegt að skrifa hugmyndirnar niður jafnóðum og þær koma, og að setja smá pressu á sjálfan sig að skrifa alltaf eitthvað.

„Mér finnst virka fyrir mig að setja mér skýr markmið eins og að skrifa eitthvað á hverjum degi. Þótt það sé bara ein setning þá er hún að færa mig nær einhverju sem ég er að leita að. Pressa sem ég set á sjálfa mig hefur blokkað svo margt sem mig langar að gera en með þessari aðferð finn ég pressuna smám saman fara og ég fer að treysta á ferlið. Ég verð líka bara opnari á allt í kringum mig og tilfinningalega nær sjálfri mér. Ég er svo nýbyrjuð að nota tól sem Julia Cameron segir frá í bókinni The Artist's Way, sem er að handskrifa þrjár blaðsíður um leið og þú vaknar, bara um eitthvað. Ég mæli innilega með þeirri bók fyrir alla sem vilja opna á meiri sköpun í lífinu sínu.

Það að skrifa hefur alltaf verið samferðakona mín í lífinu. Sem barn elskaði ég að skrifa ritgerðir í skólanum, sem þunglyndur táningur skrifaði ég hörmulega myrk ljóð og sama hvað ég hef gengið í gegnum eða mun ganga í gegnum þá veit ég að orðin munu alltaf grípa mig. Þótt ég viti ekki hvort ég muni gefa eitthvað aftur út eða ekki að þá veit ég að svo lengi sem ég mun lifa mun ég alltaf þurfa að skrifa.“

Og þegar Töru gengur illa við skriftir sækir hún í rödd innra með sér sem hvetur hana áfram.

„Það er röddin hennar [Guðbjargar] Kolku, sem var dönskukennarinn minn í ME. Hún var alltaf að koma til mín, horfa beint í sálina mína og segja með mikilli hörku í röddinni, „Þú átt að vera rithöfundur“. Ég útskrifaðist með fall í dönsku, sem mér var alveg sama um, en er ennþá full af ótta við að valda henni framtíðarvonbrigðum sem rithöfundur. Ég vil samt þakka henni fyrir að hafa verið röddin verið í hausnum á mér þegar ég finn ekki mína eigin.“

 

Upplagið ræðst af forsölunni

Bók Töru nefnist öll orðin sem ég fann og eins og oft vill verða er titillinn ekki alveg allur þar sem hann er séður. „Titillinn segir til um að þetta eru orð sem ég fann fyrir. Ekki endilega að ég hafi verið að leita að þeim heldur eru þetta frekar tilfinningarnar færðar í orð. Ég skrifa þessi ljóð um þessa rómantísku ást en bókin fjallar í rauninni um persónulegan vöxt sem flestir ættu að geta tengt við.“

Í bókinni eru einnig myndskreytingar eftir Töru sjálfa en um uppsetningu og hönnun á útliti sá Rakel Tómasdóttir. Nú stendur yfir forsala á bókinni en hún er væntanleg seinnipart sumars. Tara gefur hana út sjálf og mun það fara eftir forsölunni hversu mörg eintök verða prentuð.

„Forsalan hefur farið vel af stað. Hún er í gangi til 8. júlí inni á heimasíðunni minni, taratjorva.com. Þar er hægt að sjá nánari upplýsingar um bókina og tryggja sér eintak. Og svo er líka hægt að fylgjast með útgáfuferlinu á Instagram reikningnum mínum, @taratjorva.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.