Vill upplifa heiminn gegnum flugið

Kolbeinn Ísak Hilmarsson frá Egilsstöðum hefur stefnt að því að verða flugmaður alla tíð en hann fær atvinnuflugmannsréttindi nú í ágúst, aðeins tvítugur að aldri.

„Ég hef haft áhuga á flugi síðan ég man eftir mér og þetta er það sem ég hef alltaf stefnt á,“ segir Kolbeinn Ísak, en það er langt og margþætt ferli að ljúka atvinnuflugmannsréttindum, en það hóf hann aðeins 15 ára gamall.

„Maður má í rauninni fara í flugtíma hvenær sem er þar sem ábyrgðin er á kennaranum en ekki er hægt að taka einkaflugmannsprófið fyrr en 17 ára. Ég tók því einn og einn tíma frá því ég var 15 ára og á fyrstu önninni minni í Menntaskólanum á Egilsstöðum var ég samhliða í bóklegu einkaflugmannsnámi í fjarnámi frá Keili. Ég kláraði það á einni önn, svo tímana og lauk einkaflugmannsprófinu þegar ég var rétt rúmlega 17 ára,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn hélt áfram námi sínu við menntaskólann en mörg flugfélög gera kröfu um stúdentspróf. Til þess að fá að halda áfram námi og fá vinnu sem flugmaður þarf að safna ákveðnum tímafjölda í flugi, sem eru í dag a.m.k. 300. Kolbeinn hafði lokið 50 í einkaflugmannsprófinu.

„Ég var svo heppinn að fá leigða vél til að safna tímum hér fyrir austan og með henni náði ég 150 tímum. Eftir útskrift úr menntaskóla fyrir rúmu ári fór ég suður í bóklega námið við Keili. Vegna þess hve mikið ég var búinn að fljúga fékk ég að taka verklega tíma meðfram náminu og því kláraði ég megnið af því núna eftir áramót og á aðeins 15 tíma eftir.“

Kolbeinn dúxaði í bóklega náminu og mun klára atvinnuflugmannsréttindin nú í ágúst.

„Við tökum öll bókleg próf tvisvar, fyrst í skólanum sem gefur próftökurétt hjá Samgöngustofu. Þetta eru fjórtán próf en meðaleinkunnin mín frá Keili var 9,77 og hin 9,86. Það er önnur hæsta einkunn í sögu Keilis en ég veit ekki með hina. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra en aldrei sett eins mikinn kraft í það og í vetur, sem var ekki erfitt því þetta var svo skemmtilegt.

Ég á aðeins 15 verklega tíma eftir og einnig eitt námskeið í ágúst í áhafnasamstarfi. Að því loknu mun ég útskrifast með fjölhreyflaáritun, blindflugsáritun og atvinnuflugmannsskírteini en þá er ég orðinn fullgildur umsækjandi og uppfylli til dæmis allar kröfur hjá Icelandair.“

En hvað er svona spennandi við flugið? „Það er frelsið. Það hefur líka drifið mig áfram að mér finnst heillandi að klára þetta ungur og starfa við millilandaflug og upplifa heiminn í gegnum það. Það eru spennandi tímar og mikill uppgangur hjá millilandaflugfélögunum þannig að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn,“ segir Kolbeinn að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar