Virðast lög í flestum textum Kristjáns frá Djúpalæk

Sigurður J. Jónsson, tónlistarkennari í Brúarásskóla og Kristín Heimisdóttir, sálfræðingur og skáld Þórshöfn, flytja næstu tvö kvöld dagskrá með lögum sem þau hafa samið við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk að Bjarmalandi, næsta bæ við Djúpalæk á Langanesströnd í Bakkafirði. Sigurður segir kveðskap Kristjáns þannig að auðvelt sé að semja við hann lög.

„Þetta hófst á því að Kristín hafði samið grunn að lagi við texta Kristjáns og svo hélt það áfram. Ég fór í heimsókn til hennar og opnaði bók með safni ljóða eftir Kristján sem komu fyrst út í þeirri bók. Þá galdraðist fram lag við eitt ljóðanna. Það er lag sem við höfum aldrei breytt,“ segir Sigurður, betur þekktur sem Jonni.

Þau komust í samband við Hilmu Steinarsdóttur, sem hefur leitt listadagskrá á svæðinu. Hún kom laginu áfram á son Kristjáns, Kristján, sem er búsettur erlendis. „Hann hvatti okkur til að halda áfram því faðir hans hefðu lagt mikla vinnu í ljóðin. Dægurlagatextarnir og söngleikirnir voru hins vegar hans lifibrauð.“

Í fyrra héldu Jonni og Kristín fimm tónleika með lögum sínum við ljóð Kristjáns að Bjarmalandi. „Fyrir eina tónleikana opnaði ég eina ljóðabókina. Þar datt ég niður á ljóð sem heitir „Það er einhver að kalla“ sem fjallar um manneskju sem heyrir barn kalla í óveðri en finnur það ekki. Þarna kom fram laglína sem Kristín söng svo á tónleikunum hálftíma síðar. Það virðast lög í öllum hans textum.“

Segja sögur af Kristjáni frá Djúpalæk


Inn á milli laga fjalla þau um ævi Kristjáns og túlka texta hans. „Ein sagan sem við segjum er að vegavinnan hafi bjargað honum úr fátæktinni sem hann ólst upp í á Djúpalæk. Hann hafði engan áhuga á búskap en langaði í nám og í vegavinnunni eignaðist hann pening fyrir náminu. Hann fór í Alþýðuskólann á Eiðum og fannst hann kominn í konunglegt ævintýri, hann hafði aldrei séð aðra eins sali eða hallir, né rafmangsljósaperu, vatnsklósett eða tré. Úr þessu umhverfi kom hann með sína djúpu vitneskju um lífið sem hreif fólk.

Síðan erum við að lesa í textana hans, hvað hafi verið að gerast eða hvað hann hafi verið að hugsa. Í einum þeirra yrkir hann um manninn sem hann mæti á hverjum morgni með grátt hár, lotnar axlir og bogið bak. Þetta er eitthvað sem við könnumst við þegar við horfum í spegilinn. Annað ljóð er ort í orðastað konu sem hefur misst manninn sinn í sjóslysi og hugsar um að hann sé í höndum hafmeyja. Það er mjög falleg nálgun.“

Spila lög sín við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk á Austurlandi í haust


Þau hafa flakkað víðar með dagskrána, spiluðu í Davíðshúsi á Akureyri í vor og áforma sex tónleika á Norðurlandi á næstu vikum áður en þau færa sig austur í haust. Eftir tónleikatörnina áætla þau að fara í hljóðver til að taka upp lögin sem eru orðin 11-12 talsins.

„Við vildum fyrst spila fyrir fámennari hóp. Ættingjar Kristjáns hafa sótt tónleikana vel og brugðist vel við lögunum. Þetta eru engin popplög heldur eru textarnir í forgrunni því við viljum nálgast þá af virðingu. Okkur þykir mikill heiður að fá að glíma við þetta verkefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar