Vök Baths fagnar fimm ára afmæli með veislu

Heil fimm ár verða á laugardaginn kemur liðin síðan baðstaðurinn Vök Baths var opnaður við Urriðavatn og skal tilefninu fagnað þann dag milli klukkan 14 og 16.

Þann tíma verður gestum og gangandi boðið upp á kaffi og kökur í boði hússins og hittist æði vel á sé mið tekið af spám nokkurra veðurstofa því þær gera allar ráð fyrir fimmtán til sextán stiga hita og hægviðri þann daginn. Hugsanlega ágætt tækifæri til að demba sér ofan í laugarnar í leiðinni.

Kristín Dröfn Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri, segist vonast til að sjá sem flesta til að fagna afmælinu en vel hefur gengið frá því að hún tók við störfum um áramótin og bílastæðin við Vök oftar en ekki verið full eða því sem næst flesta daga í sumar.

„Það væri gaman að sjá sem flesta þennan dag en við erum auðvitað með Franska daga á Fáskrúðsfirði og Bræðsluna í gangi á þessum sama tíma svo það er nú ekki alveg víst að það verði krökkt af fólki. En það eru allir mjög velkomnir til að halda upp á daginn með okkur. Það verður kaka og kaffi og við erum svona aðeins að vona að með þessu fáum við inn til okkar fólk sem aldrei hefur komið til að sjá eða skoða staðinn. Það langar kannski ekki öllum ofan í laugarnar en hefur áhuga að sjá og upplifa staðinn.“

Aðspurð um aðsókn það sem af er sumri segir Kristín Dröfn hana hafa verið góða.

„Veðrið var reyndar ekki með okkur alltaf í júnímánuði en það hefur verið ágæt aðsókn almennt og það að rætast vel úr sumrinu. En við eins og allir aðrir finnum alveg fyrir minnkandi ferðamannastraum þó það sé ekkert til að barma sér yfir. “

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar