Volaða land á Seyðisfirði fyrstu sýningarhelgina

Volaða land, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, verður sýnd í fyrsta sinn hér á landi í kvöld. Myndin fer síðan um landið um helgina í fylgd leikstjóra og aðalleikara sem koma til Seyðisfjarðar á sunnudagskvöld.

Volaða land er þriðja kvikmynd Hornfirðingsins Hlyns Pálmasonar í fullri lengd. Hún segir frá ungum dönskum presti sem undir lok 19. aldar ferðast til Íslands til að reisa kirkju og ljósmynda íbúa landsins.

Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu, og eigin siðgæði.

Sýningin var frumsýnd í Cannes í Frakklandi í fyrravor. Hún fékk þar frábærar viðtökur auk þess sem gagnrýnendur hérlendis, í Frakklandi, Danmörku og Bretlandi hafa hlaðið hana lofi. Þá hlaut hún nýverið ellefu tilnefningar til Edduverðlaunanna auk þess sem Daninn Elliott Crosset Hove var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyir leik sinn.

Eliott tekur þátt í hringferðinni ásamt Ingvari E. Sigurðssyni, sem leikur aðalhlutverkið og Hlyni. Þeir verða í Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 20:00 á sunnudag og ræða við áhorfendur að sýningu lokinni.

Síðasta mynd Hlyns var Hvítur, hvítur dagur. Þar var Ingvar E. einnig í aðalhlutverki en myndin var meðal annars tekin upp í Oddsskarðsgöngunum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar