Vonast eftir húsfylli á málþingi um tækifæri og áskoranir í geðheilbrigðismálum

Sé miðað við þann fjölda sem þegar hefur skráð komu sína á málþing Tónleikafélags Austurlands um tækifæri og áskoranir í geðheilbrigðismálum sem hefst í Valaskjálf á morgun eru sterkar líkur á húsfylli eins og gerðist á málþingi félagsins á síðasta ári.

Það að hluta til frábærar undirtektir almennings á málþingi félagsins um sama málefni fyrir ári sem er ástæða þess að aðalsprauta félagsins, Bjarni Þór Haraldsson, hefur aftur skipulagt slíkt þing enda segir hann sjálfur að þörfin á umræðu um geðheilbrigðismál síst minni nú en fyrir ári síðan.

„Ég myndi jafnvel telja að þörfin sé nokkuð brýnni ár frá ári því miður og ég sannarlega orðið var við mikinn áhuga nú. Við biðjum áhugasama að skrá sig á Facebook-síðu Tónleikafélags Austurlands en það er fyrst og fremst til að geta áætlað hversu miklar veitingar við þurfum að kaupa. En gleðilegt að sjá þennan áhuga á þessum mikilvægu málum sem skipta alla máli. Þar ekki síður frá aðilum sem vilja taka þátt en almenningi sjálfum. Ég vona að við fyllum húsið og gott betur jafnvel og eins og síðast er frír aðgangur og allir velkomnir.“

Málþingið nú verður sett klukkan 12 á hádegi og frá þeirri stundu er drjúg dagskrá margra aðila sem að geðheilbrigðismálum koma fram til klukkan 17. Aðilar á borð við Geðhjálp, Píeta- og ADHD samtökin, geðheilsuteymi HSA og Lífsbrú kynna sína starfsemi en það gera einnig félagsþjónustuaðilar frá Múlaþingi og Fjarðabyggð og nemendafélög Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólans á Egilsstöðum svo fáir séu nefndir. Dagskrána í heild má sjá á Facebook-vef Tónleikafélagsins.

Í fyrra var meginþemað geðheilbrigðismál barna og unglinga sérstaklega þó víðar væri tekið niður. Aðspurður um hvort eitthvað sérstakt þema sé á málþinginu á morgun segir Bjarni það líklega forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða sem hæst standi en bæði Píeta-samtökin og verkefnastjóri miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá Landlækni halda erindi um þau mál.

Þaulsetið var á málþingi um geðheilsumál á síðasta ári og vill skipuleggjandi sjá enn fleiri á morgun. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar