Enda Vopnaskakið með stórtónleikum og Burstarfellsdeginum
Ekki alls óþekkt að Vopnfirðingar þjófstarti bæjarhátíð sinni Vopnaskaki lítillega. Það hafa þeir og gert þetta árið með viðburðum fyrir yngra fólkið sem hófust á mánudaginn var. En það er hins vegar óþekkt að enda þessa árlega hátíð bæjarbúa með stórtónleikum.
Dagskrá Vopnaskaks er vegleg að vanda og þar finna bæjarbúar og gestir eitthvað við hæfi burtséð frá aldri, störfum eða áhugamálum.
Ein þeirra sem komið hefur að skipulagningu hátíðarinnar nú er Íris Edda Jónsdóttir sem segir að byrjunin hafi lofað góðu, veðrið sé hugsanlega betra yfir hátíðina en elstu menn muna og öll teikn bendi til að í hönd fari frábær og eftirminnileg hátíð.
Veðrið hjálpar
„Þó dagskráin hafi vissulega hafist í byrjun vikunnar þá er svona aðalhátíðin ekki að hefjast fyrr en á morgun fimmtudag. Það verið ágætar undirtektir hingað til og veðrið vissulega hjálpað til og gerir vonandi áfram ef veðurspárnar reynast réttar.“
Aðspurð um hvort eitthvað standi sérstaklega upp úr á hátíðinni nú, sem stendur fram til sunnudagsins 14. júlí, segir Íris að í hennar huga sé tvennt sérstaklega sem skipuleggjendur séu sérstaklega spenntir fyrir.
„Það er klárlega annars vegar hagyrðingakvöldið sem hefst annað kvöld sem fyrir löngu hefur margsannað sig sem stórgóða skemmtun. Hins vegar eru það sennilega stórtónleikar á Framtíðartorginu í miðbænum á laugardagskvöld. Við ekki áður boðið upp á tónleika sem lokaatriðið en það verður nú og ég þykist viss um að það verði fjölsótt enda mjög flottir listamenn að skemmta.“
Þar á Íris við tvíeykið þekkta Stebba og Eyfa en þeim til fulltingis eru þrír þekktir yngri listamenn: Karítas Harpa, Stefanía Svavars og Birnir sem skemmta gestum fram á kvöldið.
Gnótt viðburða
Aðrir viðburðir sem fáir ættu að láta framhjá sér fara er kótilettukvöldið á Hótel Tanga annað kvöld. Listum og menningu er gert hátt undir höfði til dæmis með fríum aðgangi að Bíla-, bauka og smámunasafninu að Svínabökkum, listsýningu Sigrúnar Shanko, Cathy og Edze í safnaðarheimili kirkju bæjarins og sérstakri vopnfirskri tónlistarveislu á föstudaginn kemur. Endapunkturinn er svo sjálfur Burstarfellsdagurinn. Er þá fátt eitt skemmtilegt talið á hátíðinni þetta árið en dagskrána má sjá í heild sinni hér.
Vopnaskak í fyrra tókst vel upp en í ár var enginn sérstakur framkvæmdastjóri hátíðarinnar til að hafa yfirumsjón með öllu. Það hefur ekki komið í veg fyrir að hátíðin er vegleg og fjölbreytt. Mynd: Aðsend