Vopnfirðingur í liði Jóhönnu af Örk
Vopnfirðingurinn Emilía Brá Höskuldsdóttir hefur í vetur æft og leikið með franska knattspyrnufélaginu Jeanne d'Arc de Biarritz eða Jóhönnu af Örk frá Biarritz. Emilía, sem fór utan til að starfa sem barnfóstra, segir fótboltann hafa hjálpað henni að komast inn í franskt samfélag.„Mig langaði í skipulagða hreyfingu og að kynnast öðrum stelpum á mínum aldri. Ég frétti af liðinu fljótlega eftir að ég kom út. Það er í bænum mínum, Biarritz, og völlurinn er í tíu mínútna göngufæri þaðan sem ég bý. Þetta er eina kvennaliðið á svæðinu og því koma margar hinna stelpnanna úr nágrannabæjum og þurfa að keyra á milli á æfingar.
„Þegar ég mætti á fyrstu æfinguna voru þrjár stelpur komnar á undan mér. Engin þeirra talaði orð í ensku, ég enga frönsku og þjálfarinn var í fríi en í staðinn var aðstoðarþjálfarinn sem vissi ekki af mér. Þetta var því ögn erfitt allra fyrst. Síðan bættust fleiri við og það eru tvær stelpur í hópnum sem tala ágæta ensku.
Franskan mín er farin að skána. Ég get núna skilið það sem þjálfarinn segir mér en get lítið tekið þátt í spjalli innan liðsins. Ég næ samhenginu en stelpurnar tala heldur hratt fyrir mig,“ segir Emilía Brá í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Afslappað andrúmsloft
Andrúmsloftið í kringum leikina er töluvert afslappaðra í Frakklandi en það sem Emilía á að venjast úr Íslandsmótinu. „Þetta var mjög heimilislegt í fyrsta leiknum sem ég fór í með liðinu. Ég er vön slíku á Vopnafirði en þetta var á öðru plani. Þjálfarinn okkar var línuvörður og hinn þjálfarinn á móti.
Af því að stelpurnar búa ekki í sama bæ þá hittast þær lítið utan æfinga. Þær spila fótbolta til að komast í félagsskap og hreyfa sig. Hér er heldur ekki jafn mikil alvara í æfingunum. Við æfum tvisvar í viku, í um einn og hálfan tíma í senn.
Það er ótrúlega gaman að spila fótbolta í öðru landi, kynnast nýrri spilamennsku, öðrum áherslum og leikkerfum. Ég var stressuð í byrjun yfir að frönsku stelpurnar væru miklu betri en ég en þær eru flestar í svipuðum styrkleikaflokki, þótt ein og ein sé miklu betri.“
Brimbrettabær
Emilía Brá fór út í lok september til að starfa sem barnfóstra (au-pair). Í Biarritz búa um 19 þúsund manns. Bærinn er í suðvestanverðu Frakklandi, skammt frá bænum Bayonne sem Íslendingar tengja helst við reykt grísakjöt, og spænsku landamærunum. „Héðan eru 30 kílómetrar til Spánar. Það er álíka langt og frá Vopnafirði til Bakkafjarðar.“
Bærinn stendur við Baskaflóa og er þekktur fyrir brimbrettamenningu. „Hann er ein af höfuðborgum brimbretta í Evrópu. Bærinn er rólegur yfir vetrarmánuðina, þótt hér sé gott veður nær allt árið, en yfir sumarmánuðina koma hingað nokkur hundruð þúsund ferðamenn. Heimamenn fara margir annað og leigja húsin sín á meðan með góðum árangri,“ útskýrir Emilía.
Útgöngubann
Þrátt fyrir að hafa æft mánuðum saman með Biarritz hefur Emilía ekki náð að spila nema einn leik með liðinu. Fyrst vantaði heimild fyrir félagaskiptunum frá Íslandi, síðan tók franska deildin vetrarfrí og loks var það kórónavírusinn. Um mánuður er síðan æfingum var hætt og öllum leikjum frestað til að hindra útbreiðslu hans.
Síðan hafa aðgerðirnar verið hertar, tvær vikur eru nú síðan sett var á á útgöngubann um gervallt Frakkland. Aðeins er leyfilegt að fara út af eigin lóð til að fara í verslun eftir nauðsynjum, banka eða apótek, heimsækja fjölskyldu eða vini í nánasta umhverfi, til vinnu eða hreyfa sig. Fari fleiri en einn saman út að hlaupa verða þeir að hafa að minnsta kosti eins metra bil á milli sín. „Ég reyni að fara út að hlaupa. Ég hef líka gott svæði í garðinum og sólpall til æfinga hér heima,“ segir Emilía.
Áður en farið er út þarf að fylla út eyðublað með nafni, heimilisfangi og fæðingardegi ásamt ástæðu fyrir því að farið er út. Aðeins er heimilt að nota eitt blað í hvert skipti og ekki má sameina erindi. Lögregla og hermenn eru á götum til að líta á blöðin og framfylgja banninu. „Blaðið þarf að vera gilt og rétt út fyllt til að manni sé hleypt áfram. Annars eru refsingar. Ég veit ekki hverjar þær eru og vil helst ekkert komast að því.“