Walkersetur opnar í lok júlí

Fræðasetur, tileinkað enska jarðfræðingnum George Walker, verður opnað í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík í lok júlí. Þar verður einnig hýst safn um Stefán Einarsson, prófessor í bókmenntum frá Höskuldsstöðum í Breiðdal.


„Þetta er snjöll hugmynd sem sameinar bæði hug- og náttúruvísindi,“ sagði Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður. Hann hélt erindi um Walker í Háskóla Íslands í seinustu viku. „Þetta er fræðslusetur og lyftistöng fyrir ferðaþjónustu. Með opnun setursins verður tekið fyrsta skrefið í langri vegferð sem vísar út í umhverfið.“

 

Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, er einn helsti hvatamaðurinn að setrinu. „Við höfum eiginlega smyglað Walker inn í kaupfélagshúsið. Hann var kennari minn og arfleiddi mig að teikningunum að Breiðdalsvíkureldstöðinni. Eftir að hann lést ræddi ég við ekkju hans og dóttur sem voru opnar fyrir setri í hans nafni.“

Til stendur að setrið verði í samstarfi við Háskólann á Akureyri og erlenda skóla. „Það verður fundur í sendiráðinu í Lundúnum í næstu viku.“

 

Walker skrifaði ritgerð um Breiðdalseldstöðina, fyrstu stóru ritgerðina um megineldstöð árið 1963. Hann vann í fleiri sumur að jarðfræðirannsóknum á Íslandi, einkum Austurlandi. Þversniðsrannsóknir frá honum komu meðal annars að góðum notum við hönnun Fáskrúðsfjarðarganga. Walker varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1988.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar