Yfirheyrslan: Beyoncé og amma stærstu fyrirmyndirnar

Nýlega var haldinn aðalfundur félagsins Ungs Austurlands, Guðný Helga Grímsdóttir tók í kjölfarið við formennsku í félaginu og segist spennt fyrir komandi verkefnum. „Ég er mjög spennt. Það er öflugt fólk sem er með mér í stjórn og er viss um að þetta verði mjög skemmtilegt og lærdómsríkt.“

 Guðný Helga er með sveinspróf í húsgagnasmíði og gráðu í uppeldis og menntunarfræðum. Hún er búsett á Reyðarfirði þar sem hún kennir í Grunnskólanum en hún er uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur.

Guðný er nýbyrjuð að starfa með Ungu Austurlandi og segir tilgang félagsins mikilvægan. „Mér fannst nafnið Ungt Austurland hljóma mjög spennandi þegar ég heyrði það fyrst. Þegar ég kynnti mér félagið betur sá ég að tilgangur þess væri mjög mikilvægur og virkaði eins og skemmtilegt starf til að taka þátt í. Svo ég ákvað að slá til og bjóða fram krafta mína. Félagið hefur það að leiðarljósi að gera Austurland að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk. Auk þess að styrkja tengslanet ungs fólks á Austurlandi og vera málsvari þeirra. Austurland hefur svo margt upp á að bjóða og félagið er góður vettvangur fyrir ungt fólk til að fræðast um hvað er í boði og kynnast öðrum í leiðinni,“ segir Guðný Helga.

Nýr formaður gerir ekki ráð fyrir stórum breytingum í starfi félagsins á næstu misserum. „Nei það held ég ekki, aðalega viljum við halda áfram með þetta frábæra starf og byggja ofan á það. Helstu áherslur núna í byrjun eru að ákveða hvaða viðburðir verða á næsta ári. Ef einhver er með tillögur ekki hika við að senda okkur línur a Facebook,“ segir Guðný Helga að lokum.     

Yfirheyrslan:

Fullt nafn: Guðný Helga Grímsdóttir

Aldur: 32 ára

Starf: Smíða- og stærðfræðikennari

Maki: Sigurður Helgi Magnússon

Börn: Nei

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Lagarfljótið er mér kært. Þegar ég var lítil í sveit systkina ömmu minnar á Fljótsbakka sat ég stundunum tímunum saman og horfði út á fljótið.

Áhugamál? Smíðar, gott grín og náttúran.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Þegar ég fer fram úr á morgnanna tekur kanína mín alltaf hress á móti mér. Vinnudagurinn er mjög fljótur að líða, ég mæti oftast með þeim fyrstu í vinnuna svo ég byrja á smá undribúning og kaffi áður en kennsla hefst. Þegar ég kem heim eftir vinnu fær hundurinn minn alla mína athygli síðan elda ég kvöldmat og ver kvöldinu með kærastanum mínum.

Hver er þinn helsti kostur? Uppátækjasöm.

Hver er þinn helsti ókostur? Stundum of uppátækjasöm

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Pizza

Besta bók sem þú hefur lesið? Las Kviku um daginn, fannst hún mjög góð.

Kaffi eða te? Kaffi, en er alltaf að reyna vera duglegri að drekka te.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Beyoncé og ömmur mínar

Hvernig líta kosífötin þín út? Mjúkar bómullar buxur & hettupeysa.

Duldir hæfileikar? Get klappað með annarri hendi

Mesta afrek? Sveinsstykkið mitt

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ég hef verið að upplifa svo margt af listanum mínum að ég þarf að fara endurskoða hann. Það helsta sem er eftir er að upplifa Día de Muertos í Mexíkó og ferðast meira til framandi landa.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Horfa á körfubolta, klára bók sem ég er að lesa, fara út að hlaupa og slaka á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar