Yfirheyrslan: Kennari á daginn, pönkari á kvöldin

Ágúst Ingi Ágústsson er kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, körfuboltaþjálfari og trommuleikari hljómsveitarinnar DDT Skordýraeitur. Hljómsveitin hélt nýverið pönkrokkhátíðina Oriento im cuulus eða Austur í Rassgati. 

 

Ágúst segir að hátíðin hafi gengið vonum framar. Böndin sem komu fram voru öll þétt en með sinn einstaka stíl. „Verst hvað haustflensan er skæð þessa stundina og margir lágu því heima og komust ekki á tónleika. En tónleikahaldarar ráða ekki við allar breytur samfélagsins,“ segir hann 

Það er bjart framundan hjá DDT Skordýraeitri núna þegar dagar myrkurs og kertaljósa taka við. „Við munum fagna útgáfu nýrrar 16 laga breiðskífu í næsta mánuði, en platan var tekin upp í Studió Síló á Stöðvarfirði undir faglegri handleiðslu Vinny Vamos fyrstu helgina í september síðastliðnum,“ segir Ágúst og bætir við að í nánustu framtíð verða svo tónleikar á Kaffi Kósý á Reyðarfirði laugardagskvöldið 2. nóvember. „Ég hvet Reyðfirðinga og nærsveitunga til þess að fjölmenna á tónleika og eiga með okkur gæðastund. Svo ræðst frekari framtíð eftir viðtökum plötunnar sem gætu orðið allt frá frægð og frama til lögsókna og hörmunga,“ segir hann.

Águst er kennari við Verkmenntaskólann og segir það fara alveg einstaklega vel saman að kenna og pönkast. „Kennslan gengur eins og í sögu á daginn þar sem kennarinn er ljúfur og léttur í miðlun sinni á efninu eftir að hafa lamið húðir og diska fjarri kennslustofunni og nemendur meta það mikils,“ segir hann. 

„Hamingjan býr innra með þeim sem þekkja söguna. Enginn, hvort sem það er einstaklingur, samfélag eða gjörvalt mannkyn jarðar veit hvert ferðinni er heitið ef þekkingin um farin veg er ekki til staðar. Ég hefði samt gaman af því að gefa mér meiri tíma í að setja penna á blað og segja frá ákveðnum atburðum sögunnar eða kafa dýpra í hluti sem skrifað hefur verið um,“ segir Ágúst að lokum en hann er í yfirheyrslu vikunnar. 

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Ágúst Ingi Ágústsson

Aldur: 37 ára

Starf: Kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, þjálfari og trommuleikari

Maki: Gunnþórunn Elíasdóttir

Börn: Embla Ingibjörg 15 ára og Bjarney 1 árs. 

Áhugamál? Lestur góðra bóka, íþróttir, tónlist og samvera með vinum og fjölskyldu.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í NBA? Boston Celtics.

Hvaða persónu úr mannkynssögunni myndir þú bjóða í kvöldmat og af hverju?  Ég væri til í bjóða Napóleon Bonaparte og kynnast persónutörfum hans. Jafnvel myndi ég leggja til að hann héldi sig við innviða uppbyggingu Frakklands og léti aðra um utanríkismál. Þess má geta að Napóleon var meðalmaður á hæð á mælikvarða hans tíma. 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Fannst mögnuð upplifun að ganga upp í Drangaskarð. 

Hver er þinn helsti kostur? Þolinmæði og jafnaðargeð (utan vallar). 

Hver er þinn helsti ókostur? Lélegt skynbragð á venjulega hversdagslega hluti. Hlutir á heimilinu geta verið bilaðir í mánuði án þess að ég kippi mér upp við það. 

Hver er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Rjómi, því hann er undirstaða hamingjunnar í eldhúsinu og skemmir fáa rétti. 

Ertu nammigrís? Nei, stenst yfirleitt allt nema freistingar. 

Kaffi eða te? Kaffi

Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju?  Viðhald og lagfæringar eru leiðinlegar. Þrif og tiltekt er allt af hinu góða. 

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Fer með yngsta fjölskyldumeðlimin á leikskólann um átta og fæ mér síðan kaffibolla með starfsfólki VA þar sem heimsmálin eru rædd fyrir fyrstu kennslustund. Eftir vinnu tekur yfirleitt við eitt af þeim nokkrum samfélagsverkefnum sem ég hef tekið að mér vetur og má þar nefna Boltaskóla, körfuboltaþjálfun, þjálfun Gettu Betur liðs VA s. vo eitthvað sé nefnt. Eftir kvöldmat og fréttir er yfirleitt rólegt, nema æfing sé framundan hjá DDT eða íslenskukennsla fyrir útlendinga hjá Austurbrú. 

Hver er þín helsta fyrirmynd?  Foreldrar mínir. 

Mesta afrek? Að eiga tvær fallegar stelpur. 

Duldir hæfileikar? Þjáist af jákvæðri framkomuþörf og hafa allir þeir hæfileikar sem ég hef löngu komið fram og meira til. 

Besta bíómynd allra tíma? Shawshank Redemption

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Jákvæðni, heiðarleika og kímnigáfu. 

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Er jarðbundinn maður en langar að heimsækja Berlín, Róm og Aþenu. 

 

Ágúst alsæll í Drangaskarði. Mynd/aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar