Yfirheyrslan: „Svei mér þá ef ME-ingar eru ekki betri en annað fólk“

Um helgina er haldið uppá 40 ára afmæli Menntaskólans á Egilsstöðum með pompi og prakt. Kristjana H. Valgeirsdóttir eða Kristjana í búrinu eins og hún er oft kölluð er í yfirheyrslu vikunnar.

Kristjana er skrifstofustjóri í menntaskólanum og í margra augum í senn andlit og hjarta skólans, konan sem hefur svör við flestu. Hún hefur starfað við menntaskólann í 24 ár. Austurfrétt bað fjóra ME stúdenta að segja frá Kristjönu í nokkrum orðum.

„Kristjana er hlý, traust og yndisleg. Hún leysti alltaf úr óyfirstíganlegum flækjum á núlleinni.“ - Jódís Skúladóttir, verkefnisstjóri hjá Austurbrú, stúdent frá ME 2001.

„Kristjana er eins og 300 barna móðir sem gengur öllum nemendum menntaskólans í móðurstað“ - Hafþór Eide Hafþórsson, aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra, stúdent frá ME 2009.

„Ef það var eitthvað að, eitthvað vantaði eða það þurfti að redda einhverju var öruggt að Kristjana í búrinu gat bjargað málunum!“ Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, búfræðingur, stúdent frá ME 2014.

“Kristjana er alltaf vinaleg við alla sem koma til hennar og er alltaf meira en til í að hjálpa ef það vantar eitthvað.“ Bergsveinn Ás Hafliðason, ennþá framhaldsskólanemi, stúdent frá ME á morgun.


Yfirheyrslan:

Fullt nafn: Kristjana Valgeirsdóttir

Aldur: 65 ára

Starf: Skrifstofa ME

Maki: Nei

Börn: 3

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?  Úff, segi bara Stórurð/Dyrfjöll

Hver er þinn helsti kostur? Það er annarra að segja til um það

Hver er þinn helsti ókostur? Tja t.d fljótfær og óskipulögð ásamt ýmsu fl.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Lambahryggur

Besta bók sem þú hefur lesið? Engin ein best en segi bara ,,Ósjálfrátt” eftir Auði Jónsdóttur sem ég er að lesa núna í annað skipti.

Besta bíómynd sem þú hefur séð? Engin ein best, en Stella í orlofi er sú mynd sem ég hef sennilega horft oftast á :)

Kaffi eða te? Kaffi allan daginn

Duldir hæfileikar? Ekki svo ég viti

Ertu nammigrís? Jahá

Syngur þú í sturtu? Nei, og syng bara yfirhöfuð ekki af tillitsemi við aðra.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum hvað væri það?  Koma á friði

Hvað bræðir þig? Barnabörnin

Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir

Hver væri titilinn á ævisögunni þinni? U-105

Eru ME-ingar betra fólk en annað fólk? Svei mér þá held það bara :)

Verður ekki gaman á afmælishátíðinni um helgina? Tóm gleði, gleði, gleði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar