Yngra listafólk þarf að sjá að það geti fengið tækifæri

Listamaðurinn Odee er gagnrýninn á bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð fyrir að hafa ekki þekkst boð hans um að setja listaverk eftir hann upp við sundlaugina á Eskifirði. Hann telur að slíkt verk í almannarými gæti haft hvetjandi áhrif á yngri listamenn í sveitarfélaginu.

„Það hefur ekki gengið nógu vel að koma verkinu upp sem er synd því þetta er stórt og fallegt verk sem fengið hefur góða umsögn frá Listaháskólanum og fleirum,“ segir Odee í viðtali í sjónvarpsþættinum Að Austan á N4.

Odee bauðst til að gefa sveitarfélaginu listaverkið en í þess hlut kæmi að kosta uppsetningu þess á vegg sundlaugarinnar.

„Ef þekktasti listamaður Austurlands fær ekki tækifæri sjá aðrir sér ekki framtíð. Hvert eiga þeir þá að sækja. Viljum við senda komandi listafólk til Reykjavíkur eða Akureyrar, viljum við ekki frekar hafa þau hér?

Listin er þægileg því fólk getur unnið við hana úti á landi eða hvar sem er. Auðvitað viljum við hafa fólkið hér því það auðgar samfélagið í kringum sig.“

Odeee hefur getið sér góðs orð fyrir samrunalistaverk sín þar sem hann tekur þekkt tákn úr dægurmenningu og blandar þeim saman þannig úr verður nýtt samhengi.

„Fólk upplifir ákveðnar tilfinningar gagnvart ákveðnum hlutum. Ef ég set þessa hluti við hliðina á öðrum en það er vant skapar það nýja tengingu. Það er mjög auðvelt að upplifa sína skynjum út frá því hvernig hlutirnir hafa tengst inn í menningu okkar. Ég hef gaman af að fela hluti í verkunum, þegar fólk virðir þau fyrir sér lengur finnur það nýjar tengingar.“

Verk Odee eru brædd í álplötur sem síðan eru húðaðar. Hann hefur að undanförnu spreytt sig á hringlaga verkum. „Það er allt önnur mynduppbyggingu, þungamiðja verksins verður allt önnur en í þeim ferköntuðu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar