Allar fréttir
Páskablað Austurgluggans komið út
Austurglugginn er eins og ævinlega hlaðinn forvitnilegu efni. Auk frétta og páskatengds efnis eru í blaðinu viðtöl við eigendur nokkurra dýrindis hunda og umfjöllun um Hundaklúbb Austurlands. Ár stjörnufræðinnar er kynnt og fjallað um stjörnuathuganir á Íslandi frá öndverðu. Aðsendar greinar fjalla, ekki alls óvænt, um stjórnmál og uppskriftir matgæðings vikunnar eru afar kræsilegar. Síðast, en ekki síst, er brýning til frambjóðenda til Alþingiskosninga um að huga betur að Austurlandi. Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum fjórðungsins.
Farið með gát á vélsleðum
Flest vélsleðaslys undanfarinna ára má rekja til þess að of hratt var ekið miðað við aðstæður. Mjög oft er erfitt að greina misfellur, hæðir og hóla frá öðru þar sem snjórinn framan við sleðann jafnar oft þessa hluti út, að því er segir í tilkynningu frá Forvarnarhúsi.
Fjölskyldur í landinu og lánasjóðir taki saman á vanda heimila
Gunnar Þór Sigbjörnsson skrifar: Í dag eru mikið eignabál í gangi á eignum landsmanna og er fólk að sjá eignarhlut sinn hverfa vegna okurvaxta og verðbólgubáls. Það liggur fyrir að ef ekkert verður að gert er mikil hætta á því að fólk gefist upp og hætti að borga og munu þá lánastofnanir sem eiga þessi lán verða af miklu fjárstreymi vegna þessa og eignast hús í bunkum sem er raunveruleg ógn við alla.
Tap hjá Alcoa
Alcoa hefur skýrt frá því að tap fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins hafi numið 497 milljónum dollara, jafnvirði rúmlega 62 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið hefur verið rekið með tapi í tvo ársfjórðunga í röð vegna minnkandi eftirspurnar og lækkandi álverðs. Talið er að álbirgðir heimsins nemi fjögur- til fimmfaldri árlegri álframleiðslu alls á Íslandi. Þær eru taldar vera á milli 3,5 til 5 milljónir tonna.
Fyrsta umhverfisvottaða byggingin á Íslandi
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur auglýst eftir tilboðum í byggingu Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri, en hún verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum. Útboðið er unnið samkvæmt nýsamþykktri stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup. Skóflustunga verður tekin að byggingunni 16. apríl að viðstöddum umhverfisráðherra og föruneyti.
Sýning í Breiðdalssetri
Sýningin Fortíðar flögur opnar í Breiðdalssetri í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík kl. 18 í dag. Verkin eru afrakstur fyrstu gestavinnustofu Breiðdalsseturs. Guðrún Sigríður Haraldsdóttir sýnir ný myndverk unnin upp úr ljósmyndaalbúmi dr. Stefáns Einarssonar frá Höskuldsstöðum, Breiðdal.