Missagt er í Austurglugganum þessa viku um opnunartíma skíðasvæðisins í Oddsskarði. Skal áréttað að opið er á milli kl. 11 og 16 um helgar og virka daga milli kl. 17 og 20. Topplyftan verður höfð opin um helgar og frídaga frá 1. mars. Á vefsíðu Oddsskarðs segir að nú sé þar tæplega tveggja stiga frost og vestnorðvestan 0,9 metrar. Búið er að troða gil, æfingabakka og sunnan við topplyftu og einnig við byrjendalyftu. Aðrar brekkur verði ekki troðnar í dag. Vegna snjóflóðahættu er Magnúsargil merkt með borða þar sem það er lokað og má alls ekki fara undir Oddsskarð eða ofan við byrjendalyftu. Gott veður og færi er nú einnig í Stafdal við Seyðisfjörð.
Í dag féll snjóflóð á veginn um Njarðvíkurskriður og lokaði honum um tíma. Snjóruðningsbíll sem ryðja átti veginn til Borgarfjarðar réð ekki við að moka flóðinu burt, þar sem það var um tveir metrar á þykkt. Grafa var fengin á staðinn í moksturinn og er vegurinn nú opinn að nýju. Nokkuð hefur verið um snjóflóð undanfarið, einkum á Norðfirði og í Seyðisfirði.
Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti skrifar: Margar eru áhyggjur Íslendinga um þessar mundir og ekki að ástæðulausu. Mörgum finnst sem leiðin til þess að hafa áhrif á stjórn landsins sé afar löng og torsótt. Af því að ég vil heldur reyna hafa áhrif með skrifuðu orði en með því að berja potthlemma, sendi ég þennan pistil til Austurgluggans.
Árlegt Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands hefst sunnudaginn 1. mars og stendur til miðvikudagsins 4. mars. Búnaðarþing verður sett með viðhöfn á sunnudaginn en yfirskrift setningarathafnarinnar er „Treystum á landbúnaðinn“. Í vikunni verða hefðbundin þingstörf þar sem meðal annars verður fjallað um mál sem tengjast ESB-umræðu, raforkuverði, matvælaöryggi, fjármagnskostnaði og rekstrarumhverfi bænda.
Við íkveikju lá í gær í elsta húsi Borgarfjarðar eystri, sem nú er nýtt sem sumarhús. Slökkvilið var kallað út síðdegis í gærdag. Kveikt hafði verið upp í gamalli Solo-eldavél til að hlýja húsið en ekki verið lækkað aftur eftir að hitna tók innanhúss og var eldavélin orðin rauðglóandi. Skapaði það mikinn hita í húsinu en ekki kviknaði eldur, þó aðeins virðist hafa verið tímaspursmál hvenær kvikna myndi í.
Starfsmönnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í áhaldahúsum á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Stöðvarfirði var sagt upp í dag. Fjarðabyggð sagði einnig upp skrifstofufólki á Norðfirði og Reyðarfirði í gær. Tilgangurinn mun vera að afnema þær greiðslur til starfsfólksins sem eru umfram kjarasamninga. Bæjaryfirvöld hafa sett stefnuna á 10% niðurskurð í launakostnaði hjá sveitarfélaginu á þessu ári og er þetta liður í að fylgja samþykkt þar um eftir.
Samtökin Austfirskar krásir – matur úr héraði voru stofnuð í gær, fimmtudaginn 26. febrúar, á fjölmennum stofnfundi á Egilsstöðum. Tilgangur samtakanna er að efla austfirska matarmenningu og vera samstarfsvettvangur þeirra aðila sem stunda rekstur með hráefni svæðisins. Starfssvæði samtakanna nær frá Þvottárskriðum í suðri að Sandvíkurheiði í norðri.