Allar fréttir
Úrslitaviðureign Útsvars annað kvöld
Nú fer heldur betur að færast fjör í leikinn því lið Fljótsdalshéraðs keppir við Kópavog í lokaúrslitum spurningakeppni sveitarfélaganna, Útsvari, annað kvöld í Sjónvarpi. Líkt og síðastliðinn föstudag, þegar lið Héraðsbúa vann sigur á Árborg, mun nýstofnaður íþrótta- og tómstundastjóður Hattar efna til samkomu, en nú á Hótel Héraði. Þar verður keppnin sýnd á breiðtjaldi og boðið upp á veitingar. Til stendur að sjónvarpa beint frá samkomunni í Útsvarsþættinum og því eru stuðningsmenn og velunnarar hvattir til að fjölmenna. Ágóði af aðgangseyri rennur til nýstofnaðs íþrótta- og tómstundasjóðs.
Málefni Helgafells endurskoðuð
Djúpavogsbúar hafa þungar áhyggjur af rekstri dvalarheimilisins Helgafells. Var starfsfólki þar sent uppsagnarbréf fyrir síðustu mánaðarmót og jafnvel var í kortunum að rekstur yrði lagður af og vistmenn sendir á Höfn í Hornafirði eða í Egilsstaði. Nú eru hins vegar líkur til að viðunandi lausn verði fundin á næstu dögum. Íbúar á Djúpavogi afhentu heilbrigðisráðherra í gær undirskriftalista með áskorun um að lausn verði fundin hið bráðasta.
Flokkun slóða innan þjóðgarðs
Samráðsfundur um flokkun slóða innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs á Snæfellsöræfum, verður haldinn í Gistihúsinu Egilsstöðum 13. mars kl. 13:00. Fundurinn er öllum opinn.
Háskólar kynntir í ME
Nú stendur yfir í Menntaskólanum á Egilsstöðum fundur þar sem allir háskólar landsins, sjö að tölu, kynna námsframboð sitt. Kynningarfundurinn stendur til kl. 15 í dag. Nánari upplýsingar eru á vefnum www.haskoladagurinn.is.
Þjóðleiksverk frumsýnd á Austurlandi
Austfirskir skólar frumsýna nú hver á fætur öðrum leikrit undir merkjum Þjóðleiks. Leikhópurinn Lopi á Höfn og Leikfélagið Djúpið í Verkmenntaskóla Austurlands hafa þegar frumsýnt sín verk. Annað kvöld frumsýna grunnskólar Eskifjarðar og Borgarfjarðar eystra og Seyðfirðingar á laugardag. Þrettán hópar alls munu sýna frumsamin verk þriggja höfunda; þeirra Bjarna Jónssonar (Ísvélin), Sigtryggs Magnasonar (Eftir lífið) og Þórdísar E. Þorvaldsdóttur Bachmann (Dúkkulísa). Hóparnir sýna svo verkin á mikilli leiklistarhátíð á Egilsstöðum í áliðnum apríl.
Námskeið í þágu almannaheilla
Rauði krossinn efnir til námskeiðs í fjöldahjálp á laugardag. Er það ætlað fólki sem áhuga hefur á að taka þátt í verkefnum Rauða kross Íslands í skipulagi almannavarna. Námskeiðið verður haldið í húsnæði Rauða krossins að Miðási 1-5 á Egilsstöðum 21. mars kl. 08 til 16 og er þátttakendum að kostnaðarlausu.