Atvinnumálaþing hefst á Hótel Héraði kl. 14 í dag og stendur til kl. 17. Guðmundur Ólafsson, formaður atvinnumálanefndar sveitarfélagsins, mun fjalla um samspil sveitarfélags og atvinnulífs, Unnar Elísson, framkvæmdastjóri Myllunnar, um stöðu mála og tækifæri í verktöku, Auður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Hótels Héraðs, um ferðaþjónustu á Fljótsdalshéraði og Þröstur Jónsson, framkvæmdastjóri Domestic Soft um möguleikann á ,,Kísildal" á bökkum Lagarfljóts. Í kjölfarið starfa vinnuhópar og nokkrar stoðþjónustustofnanir kynna starfsemi sína. Þá mun Jóhann Jónasson, framkvæmdastjóri 3X Technology á Ísafirði, kynna fyrirtækið. Þingið er öllum opið.
Í kvöld keppir lið Fljótsdalshéraðs við lið Árborgar í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaganna í Sjónvarpi. Sigri lið Fljótsdalshéraðs í kvöld fær það tækifæri til etja kappi við Kópavog í lokaeinvígi. Kópavogur sigraði Norðurþing með 97 stigum gegn 74 um síðustu helgi. Í fyrstu umferð vann Fljótsdalshérað Vestmannaeyjar 117-63, þá Norðurþing 114-83 og í þriðju umferðinni Akureyri 86-83.
Héraðsbúum og öðrum velunnurum liðsins er í kvöld boðið í Hlymsdali, félagsmiðstöð aldraðra á Egilsstöðum, til að sýna stuðning og leggja góðu málefni lið. Austurglugginn óskar liðinu góðs gengis.
Á þriðjudag opnaði formlega nýtt námsver Þekkingarnets Austurlands á Reyðarfirði. Er það í húsi AFLs starfsgreinafélags að Búðareyri 1, í byggingu sem nú er byrjað að kalla ,,fróðleiksmolann,“ og má segja það nafn með rentu. Námsverið tók til starfa í janúarlok. Starfsemi ÞNA í húsinu verður mjög fjölbreytt.
Undirbúningur Fóðurs og fjörs (Food & Fun), matarveislu á landsvísu, er á fullri siglingu. Matarhátíðin verður haldin í áttunda skipti dagana 18. til 22. mars. Matarveislur verða um land allt og matseld í höndum færustu kokka. Þá er mikið lagt í árlega og alþjóðlega keppni matreiðslumeistara, sem nýtur virðingar og þykir eftirsótt að vinna. Til dæmis vann norski matreiðslumeistarinn Geir Skeie keppnina í fyrra og sigraði svo hina virtu frönsku matreiðslukeppni Bocuse d‘Or í vetur. Sænskur matreiðslumeistari, Jonas Lundgren varð þar í öðru sæti en hann sigraði Food & Fun keppnina fyrir þremur árum. Dómarar Bocuse d‘Or hafa dæmt Food & Fun keppnina. Hótel Hérað lætur ekki sitt eftir liggja þessa daga og býður upp á glæsilegar matarveislur 20. og 21. mars.
Matreiðslukeppni landshlutanna, Íslenskt eldhús 2009, fer fram sunnudaginn 10. maí nk. á sýningunni Ferðalög og frístundir sem haldin verður í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 8.-10. maí. Keppnin er haldin af Klúbbi matreiðslumeistara og sýningunni Ferðalögum og frístundum. Landshlutarnir senda keppendur og dómara til þátttöku og notar hver keppandi hráefni sem tengist viðkomandi landshluta. Markmið keppninnar er að kynna það besta sem hver landshluti hefur upp á að bjóða í mat og vekja athygli á hefðbundnum jafnt sem óhefðbundnum kræsingum úr íslensku matarkistunni.
Sæmundur Þór Sigurðsson vann það afrek á dögunum að ganga á hæsta fjall veraldar utan Himalaya, tind Aconcagua í Andesfjöllunum í Argentínu, skammt frá landamærum Chile. Hann verður með myndasýningu á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs næstkomandi mánudag kl. 20 í Hlymsdölum, Miðvangi 6. Sæmundur Þór var til skamms tíma með fyrirtækið Viðhald fasteigna og starfaði í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði. Hann er nú fjallaleiðsögumaður og landvörður í Mývatnssveit.
Videó- og kvikmyndahátíðin www.700.isHreindýraland verður haldin í fjórða sinn á Fljótsdalshéraði og nágrenni 21. – 28.mars næstkomandi. Þessi tilrauna-kvikmyndalistahátíð verður haldin með nýju sniði að þessu sinni, þar sem ákveðið var að nú skyldi sjónum beint að videó-innsetningum. Því munu 7 listamenn, eða pör, vinna slíkar innsetningar í Sláturhúsið á Egilsstöðum, en einnig hafa verið valin 4 prógrömm frá gestasýningastjórum sem verða sýnd í nágrenninu meðan hátíðin stendur; á Eiðum, í Skaftfelli á Seyðisfirði, á Skriðuklaustri og í Þekkingarsetri Austurlands á Egilsstöðum.