,,Ég tel mesta óráð að við göngum í Evrópusambandið,“ sagði Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi og formaður þingflokksins. Á almennum stjórnmálafundi Sjálfstæðisflokksins á Egilsstöðum í gær, reifaði hún helstu annmarka á inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ekki síst í tengslum við stefnu þess í sjávarútvegi og landbúnaði. Ásta Möller þingmaður sagði við sama tækfæri að stjórnarsamstarfið stæði afar traustum fótum.
Ungur maður frá Reyðarfirði er bæði sár og reiður eftir viðskipti við Bónus á Egilsstöðum í fyrradag. Hann keypti sér tvo kassa af orkudrykk frá Euroshopper, því við vöruna stóð að hún væri á tilboðsverði, 500 ml á 79 krónur og raunhæf kjarabót. Í hillunni stóðu einvörðungu 250 ml dósir og taldi hann því sýnt að Bónus væri að bjóða tvær slíkar á 79 krónur. Var honum sagt af verslunarstjóra að um prentvillu væri að ræða í tilboðinu og fékk engu til hnikað. Í dag voru líka komnar 500 ml dósir í hilluna. Þær kosta samkvæmt uppgefnu hilluverði nú 149 krónur og 250 ml dósirnar 79 krónur.
Borgarfjarðarhreppur hefur verið sýknaður af Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kröfu Kaupþings varðandi ábyrgð sem hreppurinn gekkst í árið 1997 fyrir Álfastein. Álfasteinn varð gjaldþrota árið 2003. Hafa málaferli vegna ábyrgðarinnar verið í gangi frá árinu 2006 og komust til kasta Hæstaréttar.
Miklar breytingar voru kynntar á heilbrigðiskerfi landsmanna í dag. Þær hafa einkum þau áhrif á Austurlandi að til enn frekara samstarfs kemur á milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, en það hefur verið töluvert síðustu árin. Skipulagsbreytingar hafa verið í gangi hjá HSA allan síðasta áratug og falla þær að kynntum breytingum. Ásta Möller, alþingismaður (D) og formaður heilbrigðisnefndar Alþingis sagði á fundi á Egilsstöðum í dag að heilbrigðisþjónusta á Austurlandi hefði batnað á síðustu árum, samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Bayo Arigbon er genginn til liðs við
1. deildar lið Hattar og leikur með liðinu út leiktíðina. Bayo kom til
landsins í fyrradag og mætti á sína fyrstu æfingu með liðinu um kvöldið.
Smári Geirsson,fyrrverandi formaður SSA og Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA, skrifa:Dr. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor ritaði grein í Austurgluggann sem birtist 27. nóvember síðastliðinn. Þar opinberar hann það viðhorf sitt að virkjunar- og álversframkvæmdir á Austurlandi séu í reynd kveikiefnið sem hratt margumræddri kreppu af stað. Undirritaðir svöruðu Þórólfi og birtist svargreinin í Austurglugganum viku síðar. Nú hefur Þórólfur stungið niður stílvopni sínu á ný og sent frá sér greinina Fullar hendur smjörs? en hún hefur einungis birst á heimasíðu Austurgluggans þegar þetta er ritað.
Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins efna til almenns stjórnmálafundar á Hótel Héraði á Egilsstöðum í hádeginu í dag. Það eru þær Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar og Ólöf Nordal, varaformaður samgöngunefndar.
Fróðlegt verður að heyra hvað þær segja til dæmis um boðaðar stórbreytingar á skipulagi og verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustu í landinu, en heilbrigðisráðherra kynnir þær á blaðamannafundi í Reykjavík í dag. Þá verður væntanlega komið inn á Norðfjarðargöng, en það liggur í loftinu að þeim verði frestað um óákveðinn tíma. Síðar í dag kynnir Vegagerðin einmitt Norðfjarðarveg um Norðfjarðargöng í Egilsbúð, Neskaupstað og á Eskifirði í Valhöll á morgun. Þá er ekki ólíklegt að Evrópumálin beri á góma á fundi Sjálfstæðismanna.