Vegagerðin ætlar að semja við Yl ehf. um endurbyggingu á 4,6 kílómetra löngum vegkafla á Borgarfjarðarvegi. Nær hann frá Lagarfossvegi að Sandi í Hjaltastaðarþinghá. Innifalið er einnig í verkingu klæðning 900 m löngum kafla á Lagarfossvegi.
Meðal efnis: Austfirðingar sem eiga um sárt að binda vegna fátæktar geta víða leitað aðstoðar. / Þórólfur Matthíasson, prófessor við Háskóla Íslands, segir beint samband milli stórframkvæmdanna á Austurlandi og fjármálakreppunnar. / Hvað segir Helga Jónsdóttir, bæjarstýra í Fjarðabyggð, um setu sína í bankastjórn Nýja Kaupþings og hvernig það samræmist störfum hennar sem bæjarstýru? / Viðtal Gunnars Gunnarssonar við Elfar Þórarinsson úr Fljótsdal. / Helga Steinsson skrifa samfélagsspegil Austurgluggans að þessu sinni og fjallar um samfélag þjóðanna á Austurlandi. / Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað hafa nú náð því markmiði sínu að gefa tæki til allra deilda sjúkrahússins.
Í dag kynnir Þekkingarnet Austurlands áætlanir um netháskóla á Austurlandi og meistaranám í umhverfis- og þjóðgarðastjórnum. Markmið fundarins er auk kynningar á verkefnunum að ræða með hvaða hætti rannsókna- og þróunarstofnanir á Héraði geti komið að slíkum verkefnum með þekkingu og mannauð.
Dagskrá verður í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit sunnudaginn 30. nóvember og hefst kl 14:00. Dagskráin ber nafnið Í aðdraganda jóla, þjóðtrú og alþýðumenning.
Ég heyri á vinum mínum syðra að skiptar skoðanir eru á því hvort grýta megi eggjum og skyri í Alþingishúsið eður ei. Sjálfri finnst mér það ekki skipta sköpum. Tvennt er í mínum huga kýrskýrt. Nú á alþýða manna að láta heyra í sér svo undir tekur í fjöllunum og gera stjórnvöldum ljóst að við erum ekki reiðubúin til að láta skítadreif fjárglæfrafólks yfir okkur ganga. Hitt er að ofbeldi á aldrei rétt á sér og við verðum að gæta þess að missa okkur ekki í slíkt, þrátt fyrir kraumandi reiði og kröfu um að ábyrgir axli afleiðingar.Ég velti fyrir mér hversu íslenskur almenningur er reiðubúinn að ganga langt til að sú krafa nái fram að ganga, þegar ekki er nein hefð fyrir því um líku innan íslenska kerfisins. Einnig er umhugsunarefni hvað kæmi þá í staðinn.Hvað sem því líður þyrstir íslenska þjóð á fjármálalegri vonarvöl í réttlæti. Hana hungrar eftir skilmerkilegri útleggingu á því hvernig nokkrir ráðandi einstaklingar gátu glutrað niður því sem gengnar kynslóðir og roskið fólk þessa lands vann þjóð sinni hörðum höndum. Hvernig á því má standa að næstu kynslóðir Íslendinga eru hnepptar í skuldafjötra vegna áhættufíknar fárra manna. Víðtæk samstaða fólksins í landinu skiptir nú sköpum og er okkar ódeigasta vopn; samstaða sem byggir á heilbrigðum kröfum og raunhæfum væntingum.Steinunn Ásmundsdóttir(Leiðari Austurgluggans 20. nóvember sl.)
700IS Hreindýraland, alþjóðleg kvikmynda- og myndbandslistahátíð á Austurlandi, sem er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, hlaut á þriðjudag einnar milljónar króna styrk frá Atvinnusjóði kvenna. Styrkirnir voru afhentir af Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötuna. Alls hlutu 56 verkefni styrk af 264 umsóknum.
Vegna veðurs hefur verið ákveðið að aflýsa rithöfundaupplestrinum sem átti að vera í kvöld á Skriðuklaustri. Rithöfundarnir sitja fastir í Reykjavík og komast hvorki lönd né strönd vegna veðurs.