Samkvæmt heimildum Austurgluggans verða Heimir Þorsteinsson og Páll Guðlaugsson kynntir sem nýir þjálfarar Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar í dag. Nýr þjálfari og samningar við leikmenn eru efni blaðamannafundar sem félagið hefur boðað til síðdegis.
Sýnt er að hægja muni umtalsvert á uppbyggingu í nýjum Vatnajökulsþjóðgarði vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Nú hefur til dæmis verið ákveðið að fresta byggingu þjóðgarðsgestastofu á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Byrja átti á byggingunni í haust.
Verkalýðshreyfingin á Austurlandi fylgist náið með framvindu mála í þeim erfiðleikum sem nú blasa við almenningi. Stéttarfélögin á Austurlandi eru í samstarfi við Vinnumálastofnun og Þekkingarnet Austurlands og munu n.k. mánudag kynna umfangsmikla áætlun um endur- og símenntun. Þá býður ASÍ forystan og AFL Austfirðingum til opins fundar um efnahags- og kjaramálin n.k. þriðjudag.
Efnt er til hátíðar í Breiðdal í dag sunnudag, vegna útkomu nýrrar bókar Guðjóns Sveinssonar, Litir og ljóð úr Breiðdal. Auk skáldsins sjálfs og Páls Baldurssonar sveitarstjóra Breiðdælinga, mun Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur stíga á stokk og fjalla um bókina.
Unnið er að því að pakka saman í verslun BT á Egilsstöðum. Henni var lokað vegna gjaldþrots eigenda fyrir nokkru, en nú eru Hagar búnir að kaupa verslunarkeðjuna og loka nokkrum verslananna, þar á meðal á Egilsstöðum.
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur barist í bökkum í rekstri sínum síðustu árin. Þjónustuaukning vegna virkjunar- og álversframkvæmda vógu þungt og lítil mótframlög fengust frá ríkinu þrátt fyrir mjög aukið álag á HSA. Nú á enn að skera niður.
Um tuttugu ungmenni á Fljótsdalshéraði hófu maraþonlestur úr Biblíunni um kl. 20 í kvöld og ætla að lesa sleitulaust uns bjarmar af morgni, eða til kl. 08 í fyrramálið. Þau eru í kristilega æskulýðshópnum Bíbí og söfnuðu áheitum fyrir lesturinn, en ætlunin er að verja því fé sem safnast til að hitta jafnaldra í æskulýðsstarfi á Vopnafirði.