Aðeins ætlaður til notkunar í algjörri neyð

Vilberg Marinó Jónasson, einn markahæsti leikmaður Íslandsmóts karla í knattspyrnu í knattspyrnu, hefur fengið leikheimild með Boltafélagi Norðfjarðar. Landsliðsmarkvörður Moldavíu skipti yfir í lið Einherja í annarri deild kvenna áður en lokað var fyrir félagaskipti á miðnætti í gærkvöldi.

„Vonandi verður þetta ekki endurkoma, þetta er eins og með fleira sem aðeins á að nota í neyð. Ég er aðeins að fylla upp í hópinn. Við viljum frekar að ungu leikmennirnir spili,“ segir Vilberg Marinó.

Hann skoraði á ferlinum 217 mörk í Íslandsmóti. Slétt níu ár eru í dag síðan það síðasta var skorað, í 5-1 sigri Leiknis Fáskrúðsfirði á Kára á Búðagrund. Vilberg Marinó, sem fæddur er árið 1972, kom inn á sem varamaður í þeim leik þegar sex mínútur voru eftir og skoraði í uppbótartíma.

Eftir það sumar lagði hann skóna á hilluna en hefur síðan verið viðloðandi þjálfun. Í sumar hefur hann leiðbeint BN í fjórðu deildinni, venslafélags Knattspyrnufélags Austfjarða í annarri deildinni.

Í vikunni var gengið frá vistaskiptum þeirra Odds Óla Helgasonar og Ragnars Þórólfs Ómarssonar í KFA en áður hafði Unnar Elí Jóhannsson flust milli félaganna. „Við erum í smá vandræðum með mannskap og settum tvo unga leikmenn, sem spilað hafa mikið fyrir BN, yfir,“ útskýrir hann.

Ein önnur félagaskipti urðu í vikunni sem varða KFA. Tómas Atli Björgvinsson, sem verið hefur í láni frá FH, fór til baka og beint til ÍH.

Landsliðskona frá Moldovíu

Vopnfirðingar voru annars atkvæðamestir Austfirðinga í félagaskiptum síðustu daga. Karlaliðið, sem býr sig undir úrslitakeppni fjórðu deildarinnar, fékk þrjár leikmenn frá Völsungi, þá Stefán Óla Hallgrímsson, Einar Örn Sigurðsson og Árna Fjalar Óskarsson. Sá síðastnefndi er alinn upp hjá Einherja og á að baki um 40 leiki með liðinu.

Kvennaliðið fékk tvo leikmenn sem leikið hafa í Rúmeníu. Annars vegar markvörðinn Margaritu Panovu sem mun vera varalandsliðsmarkvörður Moldavíu. Hún hefur verið í hópnum í síðustu leikjum, meðal annars í forkeppni HM í júní.

Þá fékk liðið framherja, Adelinu Ion, frá Rúmeníu. Hún hefur verið iðin við markaskorun í efstu deildinni þar með Banat Girls síðustu ár.

Í viðtali á vef rúmenska knattspyrnusambandsins fyrir tveimur árum segir hún frá því að hún hafi verið orðin 19 ára gömul þegar hún fór skipulega að æfa fótbolta en hún er nú 25 ára. Adelina virðist fjölhæf því eftir því sem næst verður komist hefur hún náð góðum árangri í futsal og orðið Evrópumeistari með Rúmeníu í götufótbolta. Hún er lærðir íþróttakennari og skíðaþjálfari. Þær koma í stað þeirra Xeniu Canteynys og Cörlu Martinez sem leikið hafa með liðinu í sumar en eru nú á heimleið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.