Áslaug Munda fékk hálftíma í lokaleiknum

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir frá Egilsstöðum spilaði rúmlega 30 mínútur í síðasta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Ísland er úr leik eftir 1-1 jafntefli gegn Frökkum.

Líkt og í öðrum leiknum gegn Ítölum kom Áslaug Munda inn fyrir Hallberu Gísladóttir í stöðu vinstri bakvarðar. Að þessu kom hún inn á á 60. mínútu. Eftir leikinn tilkynnti Hallbera að hún hefði ákveðið að hætta með landsliðinu.

Ísland lenti undir strax á fyrstu mínútu leiksins. Jöfnunarmarkið kom eftir að leikurinn var flautaður að, myndbandsdómari benti á mögulegt brot eftir hornspyrnu í uppbótartíma og því var dæmt víti sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði úr.

Ísland fékk því ekki frekari tækifæri til að skora. „Ég hefði viljað auka 30 sekúndur. Orkan var mikil á vellinum og það sást að okkur langaði áfram. Ég fann að okkur langaði að skora og komast áfram,“ sagði Áslaug Munda í viðtali við Fótbolti.net eftir leik.

Hún skýrði þar frá því að hún hefði ekki vitað úrslit hins leiksins í riðlinum, þar sem Belgía vann Ítalíu 1-0 sem þýddi að Ísland féll úr leik, fyrr en hún sá svipinn á þeim sem voru á bekknum er þau gengu inn á eftir leikslok.

„Þetta var lærdómur, reynsla, mjög stórt og bara gaman,“ svaraði Áslaug aðspurð um hvernig hún gerði mótið upp.

Telma Ívarsdóttir var ekki í leikmannahópi Íslands í gær en hún meiddist á æfingu fyrir annan leikinn. Þorsteinn Halldórsson þjálfaði liðið sem fyrr. Þau eru bæði alin upp í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.