Brynjar Árna: Jöfnunarmarkið var léttir

Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins, segir það hafa verið létti en líka sanngjarnt að ná að jafna í uppbótartíma gegn KFA í leik liðanna í annarri deild karla í knattspyrnu á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi.

„Það var klárlega léttir að skora þetta mark miðað við hvernig staðan var og leikurinn spilaðist,“ sagði Brynjar eftir leik. KFA komst tvisvar yfir í leiknum en Höttur/Huginn jafnaði í bæði skiptin, þótt biðin eftir seinna jöfnunarmarkinu hefði verið 65 mínútur.

„Mér fannst við liggja á þeim nánast allan seinni hálfleikinn. Í fyrri hálfleik vorum við of varkárir, lögðum upp með að vera þéttir en fengum á okkur tvö mörk, þótt við hefðum fengið nokkur góð færi.

Í hálfleik víxlaðist leikurinn. Við vissum að þeir myndu falla til baka en við fengum og þorðum að halda boltanum. Ég hefði viljað skapa fleiri færi í opnum leik en við vorum alltaf hættulegir úr föstum leikatriðum. Markið datt í lokin og ég held að úrslitin hafi verið nokkuð sanngjörn.“

Eins og Brynjar bendir á komu hvað hættulegustu færi Hattar/Hugins eftir hornspyrnur og löng innköst sem hann viðurkennir að séu æfð. „Við erum með okkar plön í þessum leikatriðum. Björgvin Stefán Pétursson, aðstoðarþjálfari, á heiðurinn af þeim. Hann var ráðinn til að fara yfir þessi atriði sem skilaði okkur marki í dag.“

Oft séð verri grasvöll

Brynjar tók ekki undir fullyrðingar nafna síns Skúlasonar, þjálfara KFA, um að Vilhjálmsvöllur hefði verið óboðlegur fyrir fótboltann. „Mér finnst það ódýr afsökun, hér var spilaður flottur fótbolti á köflum. Auðvitað var þetta erfitt en við hefðum ekkert fengið betri leik á þurru gervigrasi sem löngu er kominn tími á að skipta um á Fellavelli. Hér fáum við stemminguna sem gerir allt skemmtilegra.“

Staðreyndin er hins vegar sú að liðin er orðin vanari gervigrasinu en þau æfa á því meira en helming ársins. „Við náðum einni æfingu á grasinu, hún var erfið. Við munum hins vegar eftir mun verri aðstæðum á grasvöllum en við höfum séð hér. Völlurinn var sleginn og vökvaður fyrir leik,“ segir Brynjar.

Höttur/Huginn, sem eru nýtt í deildinni, tapaði fyrstu þremur leikjunum en hefur nú leikið þrjá leiki í röð án taps og þokast upp töfluna með fimm stig. „Það er stígandi hjá okkur leik frá leik og því er ég bjartsýnn fyrir framhaldið.“

Þrír leikmenn meiddust hins vegar um síðustu helgi. Valdimar Hilmarsson fótbrotnaði og verður vart meira með í sumar. Almar Daði Jónsson og Matheus Bettio tognuðu og verða frá í 2-3 vikur. „Við erum með vel mannaðan en lítinn hóp svo þetta er blóðtaka fyrir okkur,“ sagði Brynjar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.