Körfubolti: Vonbrigði með frammistöðuna gegn Grindavík

Höttur tapaði í gærkvöldi sínum þriðja leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið lá 87-91 fyrir Grindavík á heimavelli. Hattarliðið var langt frá sínu besta í leiknum.

Grindvíkingar voru yfir 26-29 eftir fyrsta leikhluta. Hattarmenn virtust leggja upp með að stöðva Bandaríkjamanninn Damien Pitt en við það losnaði um aðra leikmenn. Leikurinn var ekki grófur en mikil barátta og lítið leyft, einkum framan af. Strax eftir fyrsta leikhlutann var hvort lið komið með sjö villur.

Þeim fækkaði heldur í öðrum leikhluta en Grindvíkingar voru áfram með tveggja sókna forskot, sem heimamenn minnkuðu aðeins í lokin niður í 49-52. Á kafla virtist allt fara ofan í hjá gestunum en ekkert ganga upp í vörn heimaliðsins.

Svo virðist sem báðir þjálfarar hafi lagt upp með það í hálfleik að þétta varnarleikinn og báðum gekk það eftir því töluvert færri stig voru skoruð í seinni hálfleik. Höttur átti loks góðan sprett seinni hluta þriðja leikhluta og komst loks yfir, 72-71 rétt áður en honum lauk.

Grindavík skoraði hins vegar fyrstu sex stigin í fjórða leikhluta og var fljótt komið í níu stiga forskot, 76-85, sem var mesti munur leiksins. Á lokamínútunum lokuðu gestirnir teignum meðan heimamenn skutu og skutu án árangurs fyrir utan, í einni sókninni átti Höttur 5-6 skot en öll geiguðu.

Bandaríkjamennirnir í liðunum tveimur voru stigahæstir með 29 stig hvor, Tim Guers hjá Hetti og Pitts hjá Grindavík.

„Ég er hrikalega ósáttur hvernig við komum inn í leikinn, það er engin einbeiting og engin frammistaða. Það á við um okkur alla. Við vorum flatir og slakir,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar um leik liðsins.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.