Ábyrg fjármálastjórn í Fljótsdalshéraði
D-listinn í samstarfi við L-listann, hefur stýrt sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði á einu mesta uppbyggingar- og framfaraskeiði sveitarfélagsins frá upphafi. Þótt farið sé aftur til stofnunar Egilsstaðakauptúns árið 1945, finnst vart það tímabil sem jafnmiklar breytingar og jafnmikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað og á síðustu 8 árum. Mikil fólksfjölgun hefur orðið í sveitarfélaginu en fjölgað hefur um 700 manns í tveimur stærstu þéttbýliskjörnum þess. Hlutfallslega þýðir þetta að okkur hefur fjölgað um rúm 20% á þessum árum en til samanburðar má nefna að Reykvíkingum hefur fjölgað um rétt rúm 5% á þessu sama tímabili. Þessi fjölgun hefur kallað á verulegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins, sem að stórum hluta hafa verið fjármagnaðar með lántöku, fjármögnun sem síðan hefur orðið okkur mun dýrari en lagt var upp með í kjölfar efnhagshrunsins 2008. Til þessara staðreynda verður að líta þegar fjárfestingarstefna sveitarfélagsins og núverandi skuldastaða er skoðuð og hún gagnrýnd.