Fjarðabyggð í Útsvari og Mugison í Valaskjálf

mugison 2009Að vanda er mikið um að vera í fjórðungnum um helgina og engum ætti að leiðast. Vestfirðingurinn Mugison heldur tónleika í Valaskjálf, Fjarðabyggð keppir í Útsvari og Íslandsmeistarar KR koma í heimsókn í körfuboltanum.
Fjarðabyggð hefur keppni í Útsvari í kvöld þegar liðið etur kappi við Vestmannaeyjabæ. Lið Fjarðabyggðar er algerlega endurnýjað frá því í fyrra og er skipað þeim Davíð Þór Jónssyni, Hákoni Ásgrímssyni og Heiðu Dögg Liljudóttur. Sjá frétt um viðureignina hér.

Leikfélag Seyðisfjarðar frumsýnir farsann Sex í sveit á laugardagskvöldið. Verkið er eftir Marc Camoletti í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikritið gerist í sumarbústað þeirra Benedikts og Þórunnar norður í landi en sá fyrrnefndi hefur boðið besta vini sínu, Ragnari, í heimsókn yfir helgina. Ýmislegt gengur á og margt fer ekki eins og planað var. Sjá frétt um sýninguna hér.

Fræðadagur Búnaðarsambands Austurlands og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins verður haldin í Valaskjálf næstkomandi laugardag auk þess sem bændahátíðin verður endurvakin um kvöldið. Þar leikur Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, sem fagnar um leið 20 ára afmæli sínu. Nánar um viðburðinn hér.

Mugison verður með tónleika í Valaskjálf á laugardagskvöldið. Hann hefur lítið spilað hér á landi síðan metsöluplatan Haglél kom út árið 2011 og ennþá lengra síðan hann kom fram einn með kassagítarinn – þetta er tækifæri sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Sjá nánar um viðburðinn hér.

Höttur tekur á móti Íslandsmeisturum KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Leikurinn hefst klukkan 19:15. Leikurinn verður sendur beint á Stöð 2 Sport. Ljóst er að við ramman reip verður að draga hjá Hetti því KR hefur á að skipa afburðasterkum leikmannahóp.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar