Eskfirðingur í eldlínunni

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur staðið í eldlínunni síðustu vikur við að reyna að hamla útbreiðslu kórónaveirunnar á Íslandi. Það sem færri vita er að Þórólfur er að hluta til alinn upp á Eskifirði.

Þórólfur sem er fæddur árið 1953 fluttist til Eskifjarðar frá Hvolsvelli með foreldrum sínum, Valgerði Þórðardóttur úr Austur-Landeyjum og Guðna B. Guðnasyni úr Hvolhreppi er Guðni var ráðinn kaupfélagsstjóri í lok árs 1955.

Þórólfur rifjaði stuttlega upp barnæskuna á Eskifirði í fyrirlestri sem hann hélt í tilefni 20 ára afmælis Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Reyðarfirði þann 19. mars í fyrra og sagðist hafa kunnað vel við sig þar.

Guðni gat sér góðan orðstír sem kaupfélagsstjóri á Eskifirði og úr varð að fjölskyldan fluttist til Vestmanneyja þegar Þórólfur var níu ára gamall. Tíu árum síðar flutti fjölskyldan upp á fastalandið og greina ritaðar heimildir um kaupfélagssögu Vestmannaeyja frá því að eftirsjá hafi verið af Guðna úr Eyjum.

Afburða námsmaður

Þegar haft er í huga sú barátta sem Þórólfur stendur í nú um stundir kann að vera hughreystandi að honum gekk einkar vel í skóla. Í Framsóknarblaði Vestmannaeyja árið 1966 má finna tíðindi af skólalokum barnaskólans þar sem segir að Þórólfur Guðnason í sjötta bekk hafi fengið hæstu einkunn á barnaprófi, 9,5. Fyrir árangurinn fékk hann viðurkenningu frá skólanum, auk verðlauna frá Rótarý fyrir besta árangur í íslensku.

Velgengni Þórólfs í námi hélt áfram þegar lengra komið. Í Árbók Háskóla Íslands árið 1981 má finna einkunnir þeirra sem luku embættisprófi í læknadeild þá um borið. Þar er Þórólfur með hæstu einkunnina, 8,8.

Sérfræðingur í barnalækningum

Þórólfur fór í framhaldsnám í barna- og smitsjúkdómalækninum í Bandaríkjunum en réði sig til starfa á Barnaspítalanum að því loknu árið 1990. Hann tók við núverandi starfi sem sóttvarnalæknir haustið 2015, en hafði bæði verið settur sóttvarnalæknir og yfirlæknir smitsjúkdóma í rúman áratug þar á undan.

Árið 2014 varði hann doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum. Umfjöllunarefni hennar var faraldsfræði, áhættuþættir og íhlutandi aðgerðir gegn pneumókokkum á íslenskum leikskólum og byggði á áralöngum rannsóknum Þórólfs.

Ötull talsmaður bólusetninga

Í starfi sínu hefur Þórólfur verið ötull talsmaður bólusetninga og varað við áhrifum lyfjaónæmra baktería. Hann stóð í framvarðasveit íslensks heilbrigðisstarfsfólks þegar síðasti heimsfaraldur inflúensu, svínaflensan, geisaði 2009-10. Íslendingar bólusettu gegn faraldrinum og í viðtali við Fréttablaðið nokkrum árum seinna sagði Þórólfur að þær aðgerðir hefðu sparað landsmönnum 20.000 sýkingar, 70 sjúkrahúsinnlagnir, 7 innlagnir á gjörgæsludeild og eitt dauðsfall.

Hann hefur látið sig fleiri mál varða, til dæmis útbreiðslu HIV og þar talað fyrir úrræðum fyrir sprautufíkla á borð við Frú Ragnheiði. Hann hefur einnig bent á heilsufarsógnir sem steðja að mannkyninu vegna loftslagsbreytinga, svo sem loftmengun.

Í Læknablaðinu frá árinu 2018 má finna skeytasendingar milli Þórólfs sem sóttvarnalæknis og Magnúsar Gottfreðssonar, sérfræðings í smitsjúkdómum, um styrk íslenska heilbrigðiskerfisins, einkum Landsspítalans, til að takast á við farsóttir. Þar benti Þórólfur á að smitvarnirnar snérust um samfélagið allt, ekki bara spítalann og til væru drjúgar birgðir af nauðsynlegum lyfjum og vökva.

Liðtækur bassaleikari

Þegar nafni Þórólfs er flett upp í blöðum og tímaritum kemur í ljós að hann hefur vakið athygli fyrir fleira en læknisstörfum. Þannig mun hann vera liðtækur bassaleikari og spilaði meðal annars á þjóðhátíð Íslendinga í New York árið 1986. Þar kemur einnig að Eyjahjartað virðist slá örar í Þórólfi heldur en Eskifjarðarhjartað því hann hefur leikið á nokkrum tónleikum á vegum Eyjamanna, meðal annars með flautuleikaranum Gísla Helgasyni.

Þá komst hann í fréttirnar árið 1997 sem einn af ellefu læknum sem festust inni í lyftu á Landsspítalanum á leið upp á röntgendeild á morgunfund. „Við vorum víst of margir og sumir kannski of þungir. Þetta tók nú fljótt af og við þurftum ekki að beita læknisfræðinni hver á annan. Röntgendeildin er svo vel tækjum búin að þar greip kollegi okkar skrúfjárn og hleypti okkur út,“ sagði Þórólfur við Morgunblaðið við það tilefni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.