Helgin: Hellisbúinn á Seyðisfirði
„Áhorfendur mega vænta þess að sjá maka sinn í nýju ljósi, hlægja, eiga skemmtilegt kvöld og jafnvel skilja hvort annað betur eftir sýninguna,” segir Jóel Sæmundsson, sem sýnir einleikinn Hellisbúann í Herðubreið á Seyðisfirði á sunnudagskvöldið.
„Sýning fjallar um samskipti kynjanna og bara fólks almennt og hverning hlutirnir geta miskilst vegna þess að við sjáum heiminn kannski ekki alveg með sömu augum,” segir Jóel sem hefur fært Hellisbúanum nýtt líf í nýrri sviðsetningu undir leikstjórn Emmu Peirson,en sýningin hefur verið endurskrifuð að fullu og uppfærð í takt við tímann.
„Mér þykir gaman að koma á fallega staði og mig langar að koma á sem flesta staði á Íslandi og skoða landið betur í leiðinni,” segir Jóel sem lofar frábærri skemmtun þar sem hláturtaugarnar verða kitlaðar duglega.
Ýmislegt fleira verður um að vera á Austurlandi um helgina;
Á eigin skinni með Sölva Tryggvasyni
Sölvi Tryggvason, sem nýverið gaf út bókina „Á eigin skinni” verður með fyrirlestur á Djúpavogi í kvöld og á Egilsstöðum á morgun, laugardag. Sölvi er með háskólapróf í sálfræði en er líklega þekktari fyrir störf sín sem fjölmiðlamaður á Stöð2 og Skjá einum hér áður fyrr. Eftir að hafa gengið í gegnum erfitt tímabil þegar andleg og líkamleg heilsa hans hrundi fór hann að gera tilraunir á sjálfum sér á ýmsum hefðbundnum og óhefðbundar leiðir í átt að betri heilsu og innihaldsríkara lífi. Hann deilir reynslu sinni á einlægan og opinskáan hátt í bók sinni og nú í fyrirlestrum.
Forvarnarþing í Nesskóla; Ég á bara eitt líf
Vímuefni og skaðsemi þeirra verður umfjöllunarefni árlegs forvarnarmálþings sem haldið verður í Nesskóla Neskaupstað á laugardaginn. Sem fyrr eru þau forvarnarteymi Verkmenntaskóla Austurlands ásamt fjölskyldusviði Fjarðabyggðar og foreldrafélögum VA og Nesskóla sem standa að málþinginu. Húsið verður opnað klukkan 10:00 og hefst dagskrá klukkan 10:30 og stendur til klukkan 13:00. Málþingið er öllum opið, aðgangur er ókeypis og hressing í boði.
Lion King og Kötturinn með höttinn
Kvikmyndasýningafélag Austurlands stendur fyrir tveimur bíósýningum í Valhöll á Eskifirði á sunnudaginn. Klassíska teiknimyndin Lion King frá árinu 1994 verður á dagskrá klukkan 13:00 og Kötturinn með hattinn klukkan 16:00, en báðar verða myndirnar með íslensku tali.
Afmælistónleikar Hreins Halldórssonar
Hreinn Halldórsson á Egilsstöðum, sem betur er þekktur undir nafninu Strandamaðurinn sterki, blæs til tónleika í Valaskjálf á laugardaginn, í tilefni 70 ára afmælis síns þar sem flutt verða lög og textar eftir hann. Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 eru opnir öllum og aðgangur er ókeypis.
Konur taka af skarið
Námskeiðið „Konur taka af skarið” verður haldið í húsakynnum AFLs, Miðvangi 2-4, milli klukkan 11:00 og 17:00 á laugardaginní húsakynnum AFLs, Miðvangi 2-4, milli klukkan 11:00 og 17:00 á laugardaginn, en markmið þess er að valdefla og hvetja konur til þess að taka þátt og hafa áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar. Námskeiðið er opið öllum konum sem eru félagar í Starfsgreinasambandi Íslands eða í starfsmannafélögum sveitafélaganna, þeim að kostnaðarlausu.
Aron Can á Feita fílnum
Tónlistarmaðurinn Aron Can mun halda uppi stuðinu á Feita fílnum á Egilsttöðum á laugardagskvöldið, en með honum verður einnig plötusnúðurinn Egill Spegill.