Helgin: Rótarýdagurinn og ýmislegt fleira
Rótarýdagurinn 2019 er á laugardaginn og verður meðal annars haldinn hátíðlegur í Tehúsinu á Egilsstöðum milli klukkan 15:00 og 17:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Rótarýdagurinn er haldinn árlega á Íslandi en þar gefst klúbbum landsins kostur á að kynna starfsemi sína og veita almenningi innsýn í Rótarýhreyfinguna sem starfar á alþjóðavísu og styður framfarir á fjölmörgum sviðum. Rótarýklúbburinn á Héraði hefur verið starfræktur í rúma fimm átatugi og hefur allan þann tíma verið stryrkur fyrir samfélagið á mörgum sviðum.
Þema dagsins er baráttan gegn lömunarveikinni sem Rótarýhreyfingin hefur frá 1988 lagt á þriðja hundrað milljarða íslenskra króna. Hefur það verið stærsta verkefni hreyfingarinnar og hefur stórkostlegur árangur náðst frá því að Rótarý kom þar fyrst að verki.
Verkefnið nefnist Polio Plus-verkefnið og á Rótarýdeginum á Egilsstöðum ætlar Stefán Þórarinsson læknir og Rótarýfélagi að kynna það í stuttu máli, sjúkdóminn sjálfan og áhrif hans, og þá byltingu sem varð meðal þeirra þjóða þar sem honum hefur verið útrýmt. Hann mun einnig segja frá stuðningi klúbbsins við ungan kennaranema í Malawí, en það verkefni hefur nú staðið á annað ár og tengir okkur á Héraði við hina víðu veröld.
Hér má sjá stiklu úr nýju myndbandi af baráttu Rótarý gegn lömunarveiki.
Grímubúninga nerf stríð
Nerf-klúbbur Austurlands stendur fyrir grímubúninga nerf stríði í íþróttahúsinu í Fellabæ á föstudag klukkan 18:20.
REKO afhending á Djúpavogi
Fyrsta REKO afhendingin verður á Djúpavogi á laugardaginn og fer fram Við Voginn milli klukkan 14:00-14:30. Athugið að einungis er um afhendingu að ræða þennan dag, allar vörur verða að vera pantaðar og greiddar fyrir afhendinguna.
Námskeið um kyrrðarbæn í Egilsstaðakirkju
Námskeið um kyrrðarbæn (Centering Prayer) verður haldið í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju á morgun laugardag, milli klukkan 10:00 og 15:00. Kyrrðarbæn er ævaforn, kristin íhugunaraðferð og á námskeiðinu verður fjallað um aðferðina, hún kennd og iðkuð. Kennari er Dagmar Ósk Atladóttir en skráning er í síma 847-9289 eða gegnum netfangið; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Grease sing-a-long sýning
Kvennahreyfing Eskifjarðar stendur fyrir Grease „sing-a-long sýningu” í Valhöll á Eskifirði á laugardagskvöldið. Konur eru hvattar til að mæta í Grease þema en þá er miðinn aðeins á 1000 krónur, annars er hann á 1500 krónur. Húsið opnar klukkan 19:00 en sýningin hefst klukkan 20:00.
Ungmennafélagið Neisti 100 ára
Heilmikil veisluhöld verða í Hótel Framtíð á Djúpavogi næstkomandi sunnudag í tilefni 100 ára afmælis ungmennafélagsins Neista. Í tilefni tímamótanna er öllum boðið í afmælisköku, kaffi og kakó á hótelinu klukkan 15:00, en þar verður sögu félagsins gerð skil með lifandi og skemmtilegum hætti.
Fyrirlestur og konudagskaffi á Skriðuklaustri
Fyrirlestur verður á Skriðuklaustri á sunnudaginn klukkan 14:00 en þá mun Stefán Þórarinsson læknir og segja frá sjúkraskýlinu á Brekku í Fljótsdal, brunanum 1944, afleiðingum hans, viðbrögðum Gunnars skálds og hvaða áhrif bruninn hafði á byggðaþróun Fljótsdalshéraðs. Aðgangur ókeypis. Að erindi loknu er boðið upp á konudags kaffihlaðborð í Klausturkaffi.