Helgin: Uppistand án ábyrgðar og allskyns tónlist
Helgin nálgast enn á ný og enn er af nógu af taka fyrir Austfirðinga og gesti sem vilja lyfta sér upp um helgina. Margskonar tónleikar eru í boði, uppistand, hægt er að fylgjast með torfæruakstri og stunda útivist.
Hildur & Kristín koma austur er yfirskrift þriggja viðburða helgarinnar. Það eru uppistandararnir Hildur Birna Gunnarsdóttir og Kristín María Gunnarsdóttir sem ætla að kitla hláturtaugar gesta á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, í Fjarðarborg á Borgarfirði annað kvöld og í Beituskúrnum í Neskaupstað á sunnudagskvöld. Hildur segir þær stöllur hafa verið orðnar mjög þyrstar í að láta fólk hlæja.
„Ég bjó á Borgarfirði í nokkur ár og má kalla mig Borgfirðing. Ég fékk leyfi til þess. Svo var komin upp hjá okkur mikil þörf fyrir að láta fólk hlæja svo við ákváðum bara að hafa samband austur á Borgarfjörð og fá að koma þangað. Við settum svo hina viðburðina upp í leiðinni til að nýta ferðina.“
Þetta er í annað sinn sem Hildur og Kristín taka þátt í að setja upp uppistandssýningu og fara síðan á flakk með efnið, sem hefur að hennar sögn gengið afar vel.
„Við erum partur af stærri hóp sem heitir Bara góðar sem hefur verið með sýningu í Þjóðleikhúskjallaranum, en í þessari ferð erum við bara tvær góðar. Við erum svona mest að fjalla um lífið og tilveruna, svolítið um okkur sjálfar og það sem við erum að ganga í gegnum. Einhleypa lífið og aldurskomplexana og svona. En þetta er engin kvennasýning og ekki femínískt efni þannig séð.“ Aðspurð hvort sýningin sé við hæfi allra slær Hildur þó ákveðna varnagla. „Við tökum ekki ábyrgð á hjartveikum. Þeir mega samt alveg koma og við erum með startkaplana meðferðis. En við erum almennt bara kurteisar og ekkert svakalega dónalegar.“
Miðar eru seldir við innganginn og aðgangseyrir er kr. 2.500.
Þungarokk í Valaskjálf og fiskidagur á Borgarfirði
Hljómsveitin Dimma heldur í dag tvenna tónleika í Valaskjálf á Egilsstöðum. Kl. 16 eru fjölskyldutónleikar þar sem hægt er að mæta með yngstu aðdáendurna. Hljómsveitina þarf vart að kynna en hún hefur sent frá sér fimm plötur og annað eins af tónleikaplötum. Í ár tók sveitin þátt í söngvakeppni sjónvarpsins með lagið Almyrkvi. Miðaverð er 1.000 krónur. Kl. 21 eru svo fullvaxta rokktónleikar í boði. Miðaverð á þá er kr 4.900 og miðasala er á tix.is.
Það er kannski ofsagt að það sé Júróvisjón þema á tónleikum dagsins, en söngvarinn Eyþór Ingi mun syngja og án efa fara með gamanmál að sínum hætti í Fjarðarborg á Borgarfirði. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 en fyrir tónleika bjóða vertarnir í Já sæll upp á fiskiveislu, sem þeir sem hyggjast koma og njóta eru beðnir um að skrá sig í. Miðaverð á tónleika er kr. 3.900 en matur og tónleikar á kr. 7.000. Miðasala er í Fjarðarborg.
Menningin blómstrar í Neskaupstað
Í Neskaupstað er boðið upp lifandi listviðburð í kvöld, en listahópurinn LAust gengst fyrir slíkri dagskrá í kjallaranum á Þórsmörk, Þiljuvöllum 11. Þar verður boðið upp allskonar spennandi tilraunir, gjörninga, innsetningar, tónlist og bókverk. Dagskráin hefst kl. 19 og er aðgangur ókeypis.
Á morgun mun síðan Þórsmörk hýsa útgáfupartí norðfirsku sveitarinnar Coney Island babies sem sendir nú frá sér plötuna Curbstone. Gleðin hefst kl. 16 og allir eru velkomnir.
Þá fer fram í bænum Litla harmonikuhátíðin. Í kvöld kl. 20 verður harmonikuball á Hótel Hildibrand. Þar koma fram félagar úr FHUN, Harmonikufrænkur, KrÓl og hefðarmeyjarnar, Hildur Petra og Jónas Pétur. Þrjú þau síðast töldu munu síðan einnig koma fram á harmonikutónleikum sem haldnir verða í Beituskúrnum á laugardag og hefjast kl. 21.
Torfæra og Teitur á laugardegi
Akstursíþróttaklúbburinn STRAX stendur fyrir Isavia-torfærunni í Ylsgrús við Mýnes á laugardag. Keppnin hefst kl. 13 og brýna skipuleggjendur fyrir gestum að virða sóttvarnareglur og hólfaskiptingu. Mótið er hluti Íslandsmeistaramótsins í torfæruakstri.
Á laugardag verður einnig boðið upp á samsöng (Sing along) Í Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ. Þar verður spilað og sungið af hjartans list, en samsöngskvöldin þar hafa notið mikilla vinsælda. Að þessu sinni er viðburðurinn haldinn sérstaklega til að fagna 10 ára afmælis staðarins og hefst fjörið kl. 20:30.
Í Havarí í Berufirði er boðið upp á tónleika á laugardagskvöld þar sem hljómsveitin Hipsumhaps og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon koma fram. „Hipsumhaps kom eins og ferskur norðangarri inn í íslenskt tónlistarlíf með lögum eins og Lífið sem mig langar í, Honný, og Fyrsta ástin. Platan þeirra Best gleymdu leyndarmálin er drekkhlaðin af smellum sem skauta á milli nýrómantíkur og blákalds realisma og hafa svo sannarlega hitt þjóðarsálina lóðbeint í hjartastað,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum. Þar kemur einnig fram að Hipsumhaps hafa aldrei leikið áður á Austurlandi og þessvegna sé um einstakan viðburð að ræða ekki megi láta framhjá sér fara.
Gönguferð, gamall burstabær og góðir tónleikar
Sunnudagsganga Ferðafélags Fljótsdalshéraðs þennan sunnudag er upp á Rangárhnjúk. Gengið er frá skilti við hliðið að Fjallsseli og upp vegarslóða á Rangárhnjúk, 565 m hæð. Gangan er samtals 11 kílómetrar. Mæting er við hús Ferðafélagsins, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Lagt verður af stað þaðan klukkan 10:00 eftir að sameinast hefur verið í bíla. Verð er 500 krónur. Stefán Kristmannsson leiðir gönguna.
Í Vopnafirði er Bustarfellsdagurinn haldinn hátíðlegur, en þá er boðið upp á veglega dagskrá í og við gamla torfbæinn þar. Um er að ræða sannkallaða fjölskylduhátíð í sveitinni sem stendur frá kl. 14-17. Hér og þar um bæinn er góðgæti á boðstólum og utandyra leika dýrin í dalnum við hvurn sinn fingur. Frítt er fyrir 12 ára og yngri en eldri greiða kr. 900. Þá er boðið upp á veglegt kaffihlaðborð í Hjáleigunni. Bustarfellsdagurinn er hluti af veglegri dagskrá Vopnaskaks sem stendur yfir alla helgina og Austurfrétt hefur áður fjallað um.
Í Egilsstaðakirkju munu Ásdís Arnardóttir sellóleikari og Jón Sigurðsson píanóleikari koma fram á tónleikum sem hefjast kl. 20 og eru hluti af tónleikaröðinni Tónlistarstundir 2020. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.