„Hlusta á allt frá óperum og yfir í þungarokk“

Rithöfundalestin verður á ferð um Austurland um helgina með Ingu Mekkin Guðmundsdóttur Beck frá Reyðarfirði innanborðs, en hún sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu á dögunum. Inga Mekkin er í yfirheyrslu vikunnar.



Inga Mekkin er með BA gráðu í japönsku og ensku auk mastersgráðu í ritlist. Bók hennar, Skóladraugurinn, kom út fyrir stuttu en umfjöllun um hana má sjá hér.

Inga Mekkin segir fyrstu skrefin sem rithöfundur hafa verið ákaflega spennandi.

„Á meðan það er sannarlega gaman í sviðsljósinu þá er það líka erfitt fyrir manneskju eins og mig sem líður best ein heima í sófa með heitt kakó og bók. En þetta er sannarlega draumur að rætast að fá að fara út um allar trissur að tala um þetta sköpunarverk sitt sem fólk svo kaupir út í búð af fúsum og frjálsum vilja. Maður hefur oft í dagdraumum velt því fyrir sér hvernig það væri að vera í þessum sporum, en það hefur þá oftast bara snúið að því að eiga útgefna bók, ég hef aldrei leyft mér að hugsa það svo langt að sjá fyrir mér svo alla vinnuna sem fylgir þegar bókin er svo komin út.

Það er gaman að segja frá því að sem barn var ég dálítið hjátrúarfull og fletti gjarnan upp í draumráðningarbókum til gamans þegar mig dreymdi einkennilega. Eitt sinn dreymdi mig þáverandi umsjónarkennara minn, Lúðvík, sem kom til mín og bekkjarins í draumi og sagðist vera að flytja til Danmerkur. Næsta dag fletti ég nafninu hans upp í draumráðningarbókinni þar sem sagt er að það tákni upphefð. Ég þurfti auðvitað að spyrja mömmu hvað það þýðir og hún tilkynnti mér að það væri frægð og frami. Ég tók því nú reyndar ekki mjög alvarlega þá, en nokkrum mánuðum ef ekki árum síðar þá frétti ég að hinn sami kennari væri að flytja til Danmerkur. Síðan þá hefur þetta blundað svona í undirmeðvitundinni, kannski.“



Fullt nafn: Inga Mekkin Guðmundsdóttir Beck.

Aldur: 28.

Starf: Rithöfundur og Verkefnastjóri hjá HÍ.

Maki: Sambýlismaður, Jakob Reynisson.

Börn: Engin börn ennþá, en hundurinn Spenna, 5 ára.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil stelpa? Allskonar. Fyrsta minning mín af slíkum vangaveltum var kennari. En þegar kom að unglinsárunum þá langaði mig að vera með litla verslun í smábænum mínum Reyðarfirði þar sem ég ætlaði að selja ýmislegt til handavinnu, garn, efni og allskonar og svo langaði mig að vera þar með lítið verkstæði þar sem ég myndi taka við gömlum fötum og/eða húsgögnum og laga, endurnýta, sauma/smíða nýtt úr því og svo framvegis. Ég var mikill sveimhugi og sá fyrir mér framtíð sem alger sérvitringur, gott ef ég ætlaði ekki líka að eiga kannski eina kú og nokkrar hænur til hliðar við þetta.

Draumastaður í heiminum? Dalatangi. Engin spurning. Þar hef ég bestu vinkonu mína, ekkert farsímasamband, stórkostlega einangrun og get mokað eins mikinn skít og mig lystir. Fer þangað eins og oft og ég get sem er ekki eins oft og ég vildi.

Besta bók sem þú hefur lesið? Úffff, stórt er spurt. Ef ég hugsa um íslenska höfunda þá standa uppúr af því sem ég hef lesið Sossubækurnar eftir Magneu frá Kleifum sem ég gleypti í mig sem barn og les ennþá aftur og aftur, og Karitasarbækurnar eftur Kristínu Marju Baldursdóttur. Held það sé eitthvað sveitaeðli þar sem ég tengi við stúlkur/konur sem þurfa að hafa fyrir sínu í íslensku sveitunum og smábæjunum og fá svo tækifærin sem þær eiga skilið eftir allt erfiðið.

Hver er þinn helsti kostur? Réttlætiskenndin. Það sýður á mér þegar mér finnst vegið að öðrum, sérstaklega ef það eru vinir mínir. Mun koma mér í vandræði einn daginn.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er svoddan kvíðagemlingur, hef misst af skemmtilegum viðburðum og samkomum af því ég kom mér ekki út úr húsi. En stundum á maður líka bara að leyfa sér að hafa það gott heima undir teppi.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta tekið til eins og Mary Poppins er draumurinn, bara smella fingrum.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Ég á mér ekkert uppáhald. Ég dái kyrrðina í vetrarsnjónum, ég get ekki beðið eftir að sjá blómin spretta upp og trén laufgast á vorin, get hlustað endalaust á fuglasöngin á sumrin og finnst fátt fallegra en haustlitirnir.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér? Ég bara veit það ekki ennþá. En vonandi fæ ég rjúpur á einhverjum tímapunkti.

Hvað langar þig að fá í jólagjöf? Bækur og eitthvað nytsamlegt, mig vantar til dæmis eggjabikar og glasamottur.

Hvað bræðir þig? Hvolpar, fólk sem gefur mér súkkulaði og litli frændi minn þegar hann tekur utan um mig, ekki endilega í þessari röð.

Hvað er í töskunni þinni? Bækur, stílabók, dagbók, fjórir mismunandi pennar, snýtipappír, verkjatöflur, gleraugnaklútar, headphone, varasalvi, margnota innkaupapoki, dömubindi, allskonar kvittanir og „post it miðar“ og núna hafa slæðst inn einnig bókamerki og límmiðar með hönnun af bókinni minni.

Tækjabúnaður? Ég á Samsung Note 3 (sem springur ekki) sem er í senn mp3 spilarinn minn, fréttamiðill, síminn minn, lesbrettið mitt og stundum glósubók. Ég geng með Garmin heilsuúr á úlnliðnum og skrifa á gamla dell borðtölvu þegar ég heima og stundum á litla sæta Acer fartölvu þegar ég fer að heiman að skrifa. Annars finnst mér alltaf gott að nota bara blað og penna við skrifin, það er besta tæknin.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Hmmm einhver merk kona, rithöfundur, Charlotte Brontë mögulega.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni, kannski vegna þess að sjálf kann ég ekki að ljúga (en get samt skáldað heilu bækurnar á pappír?! Hvað er það?!).

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að skúra, veit ekki af hverju, kannski af því að gólfin mín eru ónýt svo það sést aldrei munurinn á hreinu og óhreinu gólfi.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég á mér enga eina fyrirmynd nema þau gildi sem ég vil standa fyrir og þau hef ég fengið héðan og þaðan.

Ætlar þú að setja þér áramótarheit? Ég hef aldrei stundað það að strengja áramótaheit, en ef ég strengi slíkt í ár verður það að klára næstu bók.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Allskonar, hlusta á allt frá óperum og yfir í þungarokk, en er ekki mikið fyrir rapp eða techno. Tom Waits er í miklu uppáhaldi hjá mér.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi líklega ekki þora að breyta neinu si svona í heiminum því ég veit ekki hvaða afleiðingar það hefði. En gaman væri að lifa í heimi þar sem ekki eru fordómar, mismunun og ofbeldi. En, ef svo væri, um hvað yrðu bókmenntirnar okkar ef allir væru jafnir og góðir??

Af hverju á fólk að skella sér um borð í rithöfundalestina? Svona fyrir utan að það eru ekki margar aðrar lestir í boði til að skella sér um borð í á Íslandinu góða, þá er það tilvalin leið til að komast í jólabókaskapið og sækja sér innblástur í ný ævintýri og innihald í jólapakkana!

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar