
Málþing um menningararfinn á konudag
Málþing um menningararfinn verður haldið á Skriðuklaustri á sunnudag, í tilefni konudagsins.Tvö erindi verða á málþinginu. Annað þeirra kemur frá Þórbergssetri í Suðursveit og ber yfirskriftina „Ferðalag um fornar slóðir - „að hlusta á nið aldanna“.“
Þar munu Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs og Fjölnir Torfason, bóndi á Hala, segja frá samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar um fornar menningarminjar í landslagi.
Hitt erindið kallast „Ljóri til landslags fortíðar - um veldi Skriðuklausturs og sýndarheimar.“ Þar fjallar Skúli Björn Gunnarsson, forstöðuamaður Gunnarsstofnunar, um jarðeignir Skriðuklausturs og gamlar ferðaleiðir og hvernig miðla má sögunni með hjálp sýndarveruleika og myndrænna gagna.
Að málþingi loknu gefst gestum færi á að prófa sýndarveruleikagleraugu, snertiskjái og annan búnað sem nýtist við miðlun og skrásetningu á menningarlandslagi.
Málþingið hefst klukkan 13:30. Að því loknu er opið í konudagskaffi hjá Klausturkaffi frá 15-17.
Vildarvinir
Austurfrétt birtir fréttir að austan alla virka daga, öllum aðgengilegar og reiðir sig á auglýsingatekjur og styrki frá lesendum sínum til að halda úti þjónustunni.
Hvers virði finnst þér að hafa aðgang að fréttaþjónustu á borð við þessa?
Smelltu hér ef þú vilt styrkja Austurfrétt.