Yfirheyrslan: Nammigrís er orðið sem lýsir henni best

Fáskrúðsfirðingurinn Þórunn Ólafsdóttir hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í vikunni og hún er í yfirheyrslunni í dag.


Þórunn hefur frá síðasta sumri dvalið að mestu á grísku eynni Lesbos sem sjálfboðaliði við að hjálpa flóttafólki og verið óþreytandi í að vekja athygli Íslendinga á málefnum fólks á flótta. Grein Austurfréttar um verðlaunin má sjá hér.

Fullt nafn: Þórunn Ólafsdóttir.

Aldur: 31.

Starf: Sjálfboðaliði í flóttamannabúðum.

Maki: Kinan Kadoni.

Börn: Nei.

Eftirlætis staður í heiminum? Þetta er mjög erfið spurning því ég á svo marga. En get í fljótu bragði nefnt Borgarfjörð eystri, Palestínu, Jökulsárhlíð, Rauða hafið og Ísbúð Vesturbæjar.

Undarlegasti matur sem þú hefur borðað? Ég hef smakkað eitt og annað. En ætli það allra undarlegasta sem farið hefur inn fyrir mínar varir sé ekki McDonalds hamborgari. Ég man ekkert hvernig hann bragðast en ég hef séð hvernig hann er búinn til.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er mjög óskipulögð.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er mjög óskipulögð.

Duldir hæfileikar? Ég er nú ekki mikið fyrir að liggja á hæfileikum mínum, svo engin leyndarmál þar.

Mesta afrek? Að læra að fylgja hjartanu.

Ertu nammigrís? Já. Ætli nokkuð orð lýsi mér betur.

Mesta undur veraldar? Feðraveldið.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég lít mest upp til sterkra, hugrakkra kvenna sem hafa rutt brautina fyrir okkur hinar.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ef? Það geta allir breytt einhverju í heiminum. Einmitt núna er ég að vinna í því að hvetja fólk til að hlúa betur hvert að öðru og minna á þá staðreynd að við erum öll í þessu saman.

Topp þrjú á þínum „bucket list“: Heimsækja frjálsa Palestínu og friðsælt Sýrland, eignast kött og verða forseti.

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerir þú? Borða nammi

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég myndi vilja þakka einstaklingnum sem fyrstur blandaði saman súkkulaði og lakkrís.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Fyndið fólk er best. En fólk sem býr ekki yfir umburðarlyndi, samkennd og víðsýni er yfirleitt ekkert fyndið.

Hvern vilt þú sjá sem næsta forseta landsins og hvers vegna? Justin Trudeau. Því árið er 2016.

Uppáhalds drykkur? Kaffi.

Framtíðarplön? Nei.

Hvaða máli skipti viðurkenningin þig? Viðbrögðin og öll fallegu skilaboðin sem hafa borist frá því hún var veitt staðfesta að velferð og öryggi flóttafólks skiptir fólk miklu máli. Hún er hvatning til að gera betur og er í mínum huga fyrst og fremst staðfesting á því að samfélagið sé meðvitað um mikilvægi málstaðarins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar