Pabbi og afi hvöttu mig til að verða flugmaður

Freydís Guðnadóttir frá Fáskrúðsfirði verður flugmaður Dash-8 flugvélar Icelandair sem verður til sýnis á Egilsstaðaflugvelli sem hluti af hátíðinni „Flug & fákar“ á sunnudag.

Vélin er ein þriggja Dash-8 flugvéla Icelandair eru meðal þeirra flugvéla sem taka þátt í deginum. Vélin á að lenda klukkan 13:30 á sunnudag og verður til sýnis fram undir klukkan fjögur.

„Við fljúgum Dash vélum innanlands, síðan til fimm áfangastaða á Grænlandi auk Færeyja. Það eru mörg flug til Grænlands í sumar þannig þetta er mjög fjölbreytt,“ segir Freydís, sem verður flugmaður vélarinnar sem kemur austur á sunnudag.

Freydís byrjaði að fljúga fyrir Icelandair vorið 2023. Hún segir það þó ekki hafa verið bernsku draum sinn að fara að fljúga.

„Ég fór þessa klassísku leið upp í Menntaskólann á Egilsstöðum eftir grunnskóla en var pínu týnd eftir stúdentsprófið. Afi og pabbi hvöttu mig til að læra fljúga. Mér fannst það fáránleg hugmynd þá, ég hélt að það gæti enginn orðið flugmaður nema hafa alist upp í flugheiminum.

Á sama tíma fann ég ekkert háskólanám sem heillaði mig algjörlega, sá mig ekki fyrir mér á skrifstofu í níu til fimm vinnu.

Þeir héldu áfram að halda fluginu að mér og ég skoðaði námið. Mér fannst margt við það heillandi, raungreinar og verklegt nám þannig ég lét vaða á kynningartíma. Eftir kynnisflugið var ég alveg heilluð, kýldi á námið og sé alls ekki eftir því.“

Á flugdeginum stendur einnig til að sýna listflug og von er á P-8 kafbátaleitarvél bandaríska hersins. Allt er það háð veðri. Glæsilegir bílar frá ýmsum tímum verða til sýnis auk þess sem kynning verður á barnastarfi Akstursíþróttafélagsins START.

Freydís kveðst spennt fyrir að mæta á flugdaginn. „Þegar dagurinn var haldinn 2022 var ég að vinna í flugturninum á Egilsstöðum. Hann heppnaðist ótrúlega vel í alla stað. Síðan finnst mér alltaf sérstaklega gaman að fljúga austur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar